Fjárhagsáætlun Húnaþings vestra fyrir árið 2018 samþykkt

Á fundi sveitarstjórnar Húnaþings vestra fimmtudaginn 14. desember sl. var fjárhagsáætlun sveitarsjóðs og undirfyrirtækja ásamt áætlun fyrir árin 2019-2020 lögð fram til síðari umræðu og samþykkt. Gerir áætlunin ráð fyrir 12,8 milljón króna tekjuafgangi. Áætlað er að fráveita, hitaveita og vatnsveita skili rekstarafgangi en önnur B-hluta fyrirtæki séu rekin með halla.

Í bókun sveitarstjórnar segir: „ Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2018 hefur eins og undanfarin ár verið lögð áhersla á hagkvæmni í rekstri sveitarfélagsins og skynsemi í framkvæmdum. Sem fyrr hefur samvinna á milli meirihluta og minnihluta sveitarstjórnar um áherslur við fjárhagsáætlunargerð verið afar góð. Fjárhagsáætlanir einstakra deilda eru unnar í góðri samvinnu við forstöðumenn stofnana.“

Fjármagnskostnaður sveitarfélagsins hefur lækkað umtalsvert undanfarin ár þar sem ekki hafa verið tekin lán frá árinu 2011 að undanskildum árunum 2015 og 2017 þegar tekin voru lán vegna framkvæmda við hitaveitu í dreifbýli samtals kr. 100 milljónir. Á næsta ári er gert ráð fyrir lántöku vegna hitaveituframkvæmda upp á 50 milljónir króna og hjá eignasjóði vegna viðbyggingar við íþróttamiðstöð upp á 40 milljónir. Á sama tíma eru eldri lán greidd niður um 50 milljónir króna.

Sveitarstjórn Húnaþings vestra hefur almennt hækkað gjaldskrár undanfarin ár í samræmi við verðlagsbreytingar og er sami háttur hafður á fyrir árið 2018.  Vistunargjald leikskóla hefur þó ekki  verið hækkað frá árinu 2011. Álagningaprósenta A-gjalds fasteignaskatts er lækkuð á ný í áætlun ársins 2018 þar sem fasteignamat í sveitarfélaginu hækkaði nokkuð á milli ára.  Greiðslur fasteignaeigenda í Húnaþingi vestra eiga því almennt að vera svipaðar árið 2018 og þær voru 2017.

Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar Húnaþings vestra fyrir árið 2018 eru:

  • Áætlunin er lögð fram með um 12,8 milljón kr. tekjuafgangi.
  • Tekjur samstæðunnar eru áætlaðar 1.404 milljónir kr. en gjöld 1.371,6 milljónir kr. án fjármagnsliða.
  • Fjármagnsliðir eru áætlaðir 19,3 milljónir kr.
  • Veltufé frá rekstri til greiðslu afborgana lána og til fjárfestinga er 84 milljónir kr.
  • Hlutfall veltufjár frá rekstri er áætlað 6%.
  • Áætlað er að afborgun langtímalána verði 50 milljónir kr. á árinu 2018.
  • Handbært fé í árslok 2018 er áætlað 14,7 milljónir kr. sem er lækkun um 31,1 milljón kr. frá ársbyrjun.
  • Gert er ráð fyrir hækkun á liðnum eigið fé um 12,8 milljónir kr. frá afkomuspá ársins 2017
  • Gert er ráð fyrir hækkun skulda og skuldbindinga um 24,5 milljónir kr. frá afkomuspá ársins 2017.
  • Gert er ráð fyrir eignfærðri fjárfestingu á árinu 2018 upp á 153 milljónir kr.
  • Skuldahlutfall er áætlað 59,5% sem er svipað hlutfall og í ár samkvæmt útkomuspá. 

Árið 2018 er áfram gert ráð fyrir talsverðum fjárfestingum og framkvæmdum á vegum sveitarfélagsins líkt og verið hefur undanfarin ár. Umfangsmiklum hitaveituframkvæmdum í dreifbýli sem staðið hafa frá árinu 2015 er nú lokið í bili. Á árinu 2018 er gert ráð fyrir undirbúningi næstu skrefa í stækkun hitaveitunnar með borun eftir heitu vatni á Reykjatanga og rannsóknum á hvort vænlegt er að bora á Borðeyri.  Verði niðurstöður góðar verður hitaveituframkvæmdum í dreifbýli haldið áfram og gert ráð fyrir þeim í áætlunum áranna 2019, 2020 og 2021.  Þá er fyrirhugað að fara í viðamiklar viðhaldsframkvæmdir við hitaveitu á Hvammstanga á næstu árum enda lagnir þar sumar að nálgast hálfrar aldar afmælið.

Stærstu  fjárfestingarverkefni  ársins  2018  eru áframhaldandi vinna við stækkun íþróttamiðstöðvar, gatnagerð, undirbúningur fyrir áframhaldandi framkvæmdir við hitaveitu, eins og áður kom fram, sem og lagning ljósleiðara. Ennfremur er gert ráð fyrir að unnið verði að hönnun viðbyggingar við Grunnskóla Húnaþings vestra á árinu 2018 sem og áframhaldandi vinnu við hönnun og uppbyggingu leik- og frístundasvæðis við skólann.

Sem fyrr er gert ráð fyrir styrkveitingum til fjölmargra félagasamtaka og menningarverkefna að fjárhæð alls 26,9 milljónir króna. Því til viðbótar eru greiddir styrkir til leikfélags, styrkir vegna fasteignagjalda og hitaveitu til félaga o.fl. Þá er gert ráð fyrir að áfram verði fjármagni veitt í Framkvæmda-  og nýsköpunarsjóð Húnaþings vestra sem stofnaður var árið 2014 og er ætlað að styðja við frumkvöðla- og nýsköpunarstarf í sveitarfélaginu.

Hægt er að lesa sér nánar til um fjárhagsáætlun Húnaþings vestra hér

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir