Fjölgun starfa hjá Fæðingarorlofssjóði á Hvammstanga

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, heimsótti þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar á Hvammstanga í gær sem annast umsýslu Fæðingarorlofssjóðs. Við það tækifæri undirrituðu hann og Gissur Pétursson forstjóri stofnunarinnar samstarfsyfirlýsingu þar sem kemur fram að tvö stöðugildi munu bætast við skrifstofuna á staðnum.
Sagt er frá þessu á heimasíðu Vinnumálastofnunar og samstarfsyfirlýsingin birt:
„Velferðarráðuneytið og Vinnumálastofnun hafa undanfarið unnið að því að uppfæra rafræna umsýslu Fæðingarorlofssjóðs og nýtt til þess fjármuni sem fengust til verkefnisins frá sk. Lands-hlutanefnd Norðurlands vestra árið 2016. Um síðustu áramót var tekið í notkun nýtt greiðslukerfi sem hefur reynst vel – er skilvirkt og gangsætt og svarar kröfum nútímans. Næsti áfangi í bættri framkvæmd laganna um Fæðingar og foreldraorlof er að uppfæra heimasíðu sjóðsins, gera umsóknarferli rafrænt og auðvelda samskipti þjónustuþega og stofnunarinnar. Stefnt er að því að ljúka þeirri vinnu á yfirstandandi ári.
Velferðarráðuneytið hyggst styrkja þessa starfseiningu Vinnumálastofnunar sérstaklega til þess fylgja þessu verkefni eftir með einu stöðugildi. Í kjölfar fyrirhugaðrar hækkunar fæðingarorlofsgreiðslna og lengingar orlofstíma hyggst ráðuneytið bæta við öðru stöðugildi til þess að auka eftirlit með greiðslum Fæðingarorlofssjóðs og styrkja starfsemina.
Vinnumálastofnun er afskaplega ánægð með þann áhuga sem félagsmálaráðherra sýnir með þessu framtaki til að styrkja þá mikilvægu starfsemi sem stofnunin fer með höndum á Hvammstanga.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.