Framleiðsla á mann er hvergi minni en á Norðurlandi vestra
Þróunarsvið Byggðastofnunar, í samvinnu við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, hefur gefið úr skýrsluna Hagvöxtur landshluta 2008-2015 og er þetta í áttunda skipti sem slík skýrsla er unnin. Nokkrar af helstu niðurstöðum skýrslunnar eru að hagvöxtur á tímabilinu mældist 3% á höfuðborgarsvæðinu en 6% utan þess. Framleiðsla jókst mest á Suðurnesjum, Norðurlandi eystra og Suðurlandi. Lítill vöxtur var á Austurlandi og Norðurlandi vestra og að á Vestfjörðum dróst framleiðsla saman.
Í skýrslunni segir að landbúnaður sé mikilvægari atvinnugrein á Norðurlandi vestra en í öðrum landshlutum, að Suðurlandi undanskildu og að hlutur sjávarútvegs sé minni en annars staðar utan höfuðborgarinnar. Um 9% ársverka eru í landbúnaði, en aðeins 7% í sjávarútvegi. Athygli vekur að opinber þjónusta er stærsta atvinnugreinin, með stærri hluta framleiðslunnar en í öllum öðrum landshlutum. Framleiðsla á mann er hvergi minni en á Norðurlandi vestra.
Laun og rekstrarafgangur eru óvíða minni en í landbúnaði og greinar með miklum hagnaði og háum launum eru ekki mjög sterkar. Laun á ársverk eru hvergi lægri. Staðgreiðsluverð á húsnæði í sérbýli var að jafnaði 150 þúsund krónur á Sauðárkróki, rúm 70% af landsmeðaltali, en á Blönduósi var það aðeins 97 þúsund krónur, eða tæpur helmingur af landsmeðalverði.
Sjá nánar HÉR