Frjálsar handfæraveiðar – réttur sjávarbyggða og skref til sátta

Undan ströndum Íslands eru ein gjöfulustu fiskimið í heimi. Þessa auðlind hafa Íslendingar nýtt frá því land byggðist. Íbúar sjávarbyggðanna eiga tilkall til fiskimiðanna undan ströndum landsins. Þar hefur byggð frá landnámi byggst á fiskveiðum og landbúnaði. Nýjar atvinnugreinar, fiskeldi og ferðaþjónusta, eru árstíðabundin aukabúgrein. Takmarkanir stjórnvalda á veiðum íbúa undan ströndum sjávarbyggðanna eru skerðing á búseturétti þeirra.

Takmarkanir á atvinnufrelsi þurfa að byggja á sterkum rökum og ekki ganga lengra en nauðsyn krefur. Aflahámark sem takmarkar fiskveiðar á eingöngu að ná til þeirra veiða sem ógna fiskistofnum, ekki til veiða sem ógna þeim ekki. Handfæraveiðar ógna ekki fiskistofnum.

Atvinnulíf er grundvöllur allrar byggðar. Það, ásamt innviðum á borð við nútímasamgöngur og -netsamband, góða heilbrigðisþjónustu og menntun sem standast samanburð við höfuðborgarsvæðið, er réttmæt krafa íbúa landsbyggðarinnar. Jöfn búsetuskilyrði í landinu er grundvallarréttur allra landsmanna. Val á búsetu á landsbyggðinni á ekki að vera val um skerta þjónustu, skert búsetuskilyrði og lífsgæði.

Sagt er að leiðin til Heljar sé vörðuð góðum áformum. Kvótakerfið sem komið var á til bráðabirgða 1984 er slík varða fyrir margar sjávarbyggðir. Aflamark í þorski var þá lækkað í 220.000 tonn til að byggja upp þorskstofninn, sem eru sömu veiðiheimildir og í dag. Árangurinn er enginn. Örfáir útgerðarmenn náðu með tímanum til sín mestum hluta aflamarksins og skeyttu litlu um sjávarbyggðirnar. Kvótakerfið er óbreytt og sjávarbyggðir halda áfram að hnigna og íbúum fækkar. Þessi þróun mun halda áfram verði ekki nýtingarréttur sjávarbyggðanna viðurkenndur. Það er viðurkenning á atvinnufrelsi og búseturétti.

Mikilvægt er að endurreisa rétt íbúa sjávarbyggðanna til að nýta sjávarauðlindina á þann hátt að fjölskyldur geti lifað af fiskveiðum. Öflug smábátaútgerð mun hleypa nýju lífi í sjávarbyggðirnar og verða forsenda enn fjölbreyttara atvinnulífs og mannlífs. Það heldur landinu öllu í byggð og er þjóðhagslega hagkvæmt.

Flokkur fólksins mun á kjörtímabilinu berjast fyrir því að íbúar sjávarbyggðanna og þjóðin fái að njóti auðlinda sinna. Við viljum nýtingarstefnu fiskimiða þar sem auðlindin er sameign þjóðarinnar en ekki einkaeign fárra útvalinna. Við munum því beita okkur fyrir því að íbúar sjávarbyggða njóti aukins réttar til að nýta sjávarauðlindina með jákvæðum áhrifum á sjávarplássin víðs vegar um land. Það er skref til sátta í deilum um sjávarútvegsmál, sem hafa áratugum saman skaðað tiltrú almennings á stjórnkerfið og stjórnmálin.

Kvótakerfið var sett á til verndar fiskistofna og á einungis að ná til þeirra veiða sem ógna fiskistofnum. Handfæraveiðar ógna ekki fiskistofnum við Ísland og á því að gefa frjálsar.

_____________________________

Eyjólfur Ármannsson
Höfundur er alþingismaður fyrir Norðvesturkjördæmi.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir