Gæsir og álftir valda Skagfirðingum skaða

Í nýju Bændablaði er ýtarleg umfjöllun um hvimleitt vandamál sem bændur standa frammi fyrir en það er ágangur álfta og gæsa í kornakra þeirra. Gríðarlegt tjón hefur orðið af þessum völdum í ræktarlöndum og að sögn bænda sem Bændablaðið hefur rætt við er þolinmæðin senn á þrotum. Hafa nokkrir bændur í Skagafirði gefist upp á kornrækt af þessum sökum.

Blaðið greinir frá því að bændur kalla eftir alvöru aðgerðum til að verja ræktun sína fyrir ágangi fuglanna. Umræða af sama meiði hefur verið mikil síðustu ár en lítið er um aðgerðir. Taka sumir bændur svo djúpt í árinni og segja að verði ekki brugðist við og mönnum heimilað að verja akra sína sé sjálfhætt í kornrækt á Íslandi.

Guðrún Lárusdóttir, bóndi í Keldudal og formaður Búnaðarsambands Skagfirðinga segir að nokkrir bændur í Skagafirði hafi gefist upp á kornrækt, vegna ágangs álfta og gæsa. „Ég er búin að heyra í nokkrum bændum, flestir hafa orðið fyrir einhverju tjóni – sumir verulegu. Það er ýmist álft, gæs eða hvoru tveggja. Það eru nokkuð margir akrar þar sem ekki er hægt að þreskja 1-2 ha af þeim. Kornrækt hefur stórlega dregist saman í Skagafirði síðustu ár,“ segir Guðrún í viðtali í Bændablaðinu en að hennar mati hleypur tjón bænda í Skagafirði á milljónum.

Sjá nánar HÉR

Fleiri fréttir