Góð aðsókn í sundlaugina á Hvammstanga í sumar
Sundlaugin á Hvammstanga hefur verið vel sótt í sumar, jafnt af ferðamönnum og heimamönnum. 12.500 gestir sóttu afþreyingu af einhverju tagi hjá íþróttamiðstöðinni yfir sumarmánuðina að því er segir á vef Húnaþings vestra. Eru það fleiri gestir en á sama tíma í fyrra þegar talan var 11.510 fyrir sömu mánuði. Sundgestum hefur fjölgað mest og hafa starfsmenn íþróttamiðstöðvar fengið mikið hrós frá innlendum gestum fyrir hófsamt verð á sundmiða en á Hvammstanga kostar stakur miði í sund aðeins 550 krónur. Starfsmenn íþróttamiðstöðvarinnar hafa orðið þess varir að ferðamenn sem eru á staðnum í nokkra daga leyfi sér að koma aftur og aftur í sund vegna viðráðanlegs kostnaðar.
Nú eru framkvæmdir hafnar við íþróttahús Húnaþings vestra þar sem verið er að skipta um gólfefni og setja parket í stað dúks sem verið hefur á gólfinu frá því húsið var byggt árið 2002 og þjónað hlutverki sínu afar vel. Óhætt er að segja að margir hafi lagt hönd á plóg við framkvæmdirnar en blakdeild Kormáks tók tæki og tól úr íþróttahúsinu og setti í gám, starfsmenn fyrirtækisins SG Dúkari tóku dúkinn af, körfuknattleiksdeild Kormáks bar parketið inn í húsið og verktakar á vegum Egils Árnasonar leggja parketið. Til aðstoðar eru starfsmenn þjónustumiðstöðvar (áhaldahúss) Húnaþings vestra.
Vegna framkvæmdanna hefur ekki verið hægt að byrja æfingar og kennslu í húsinu á haustönn eins og vera ber og hefur það helst bitnað á blak- og körfuknattleiksdeild Kormáks sem eru skráð á Íslandsmót. Áætlað er að opna húsið í byrjun október.
Þá verður sundlaugin lokuð n.k. mánudag og þriðjudag, 11. og 12 september vegna framkvæmda. Stefn er að því að opna sundlaugina aftur á miðvikudaginn með fyrirvara um að framkvæmdum verði lokið þá.