Góðar undirtektir við starfakynningu
Eins og Feykir fjallaði um fyrir nokkru hefur verið ákveðið að halda svokallaða starfakynningu á vegum Sóknaráætlunar Norðurlands vestra. Leitað er til fyrirtækja og stofnana á Norðurlandi vestra á sviði iðn-, verk-, raun- og tæknigreina um að kynna þau störf sem innt eru af hendi á þeirra vinnustöðum fyrir nemendum í eldri bekkjum grunnskólanna á svæðinu svo og nemendum Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki. Ennfremur verður kynningin opin foreldrum. Lögð er áhersla á að hér er um starfakynningu að ræða en ekki kynningu á fyrirtækjunum sem slíkum.
Í síðustu viku voru haldnir kynningarfundir fyrir aðila atvinnulífsins á Norðurlandi vestra sem áhuga höfðu á að kynna sér málið nánar. Að sögn Margrétar Bjarkar Arnardóttur, sem hefur umsjón með verkefninu, mættu um 30 manns á fundina sem haldnir voru á fjórum stöðum á svæðinu; á Blönduósi, Hvammstanga, Sauðárkróki og Skagaströnd. Undirtektir voru almennt mjög góðar og á næstunni verður opnað fyrir skráningar fyrirtækja og stofnana á kynninguna en nú þegar hafa nokkrir staðfest þátttöku. Vonast Margrét til að ná til sem flestra sem eru með starfsemi á þessum sviðum. Þá hafa undirtektir skólanna verið mjög góðar og hafa allir grunnskólar á svæðinu, utan einn, boðað komu sína, auk Fjölbrautarskólans.
Kynningin verður haldin þann 15. nóvember í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki.
Sjá einnig frétt á Feykir.is http://www.feykir.is/is/frettir/soknaraaetlun-nordurlands-vestra-stendur-fyrir-starfakynningu