Hanna og smíða hleðslustöð fyrir rafmagnsreiðhjól
Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra tekur þátt í Evrópuverkefninu Easy Sharging Green Driving ásamt fjórum öðrum skólum frá Noregi, Belgíu, Tékklandi og Þýskalandi. Í síðustu viku var komið að FNV að halda utan um sameiginlegan fund allra skólanna.
Dagana 20. til 23. september komu 20 þátttakendur á Sauðárkrók frá skólunum bæði kennarar og nemendur til að vinna áfram að hinu sameiginlega verkefni sem gengur út á það að hanna og smíða hleðslustöð fyrir rafmagnsreiðhjól.
Orkan sem nota á, skal vera „græn“ og þess vegna var unnið með vindmyllur og sólarsellur til þess að framleiða hana á hjólin.
Björn Sighvatz, kennari málmiðngreina, segir kostinn við þá útfærslu þann að stöðin getur staðið sjálfstæð óháð utanaðkomandi rafkerfum. „Svona stöðvar geta gefið ýmsa fleiri möguleika en að hlaða hjólin. Þær gætu t.d. komið sér vel fyrir rafmagnslausa snjalltækja notendur,“ segir Björn.
Fyrir utan að leysa þau verkefni sem upp koma við útfærslur og smíði þá standa gestgjafar hvers fundar fyrir kynningu á mannlífi, menningu og atvinnulífi landsins fyrir gestina.
Að þessu sinni var farið í Blöndustöð sem framleiðir mikið afl og í Steinullarverksmiðjuna á Sauðárkróki sem notar mikið afl og framleiðir hágæðavöru. Næsti sameiginlegi fundur verður í Belgíu og svo lýkur verkefninu í Steinfurt í Þýskalandi.