Hátíð tileinkuð 500 ára afmæli Marteins Lúthers
Hólahátíð 2017 fer fram föstudag til sunnudags, 11. -13. ágúst og verður hátíðin tileinkuð 500 ára afmæli Marteins Lúthers, með áherslu á siðbót í samtíð. Hátíðardagsskrá verður sett af Solveigu Láru Guðmundsdóttur, vígslubiskup í Auðunarstofu á föstudaginn kl.17:00. Á dagsskrá má helst nefna þátttökugjörninginn Tesur á Hólahátíð, sem fer fram alla helgina og Tón-leikhúsið á sunnudeginum kl. 11:00.
Tesur á Hólahátíð er í umsjá listakvennanna Guðrúnar Kristjánsdóttur og Ólafar Nordal, en þar gefst fólk tækifæri til að nota sömu prent-tækni og Marteinn Lúther nýtti þegar hann mótmælti kaþólsku kirkjunni og hengdi sínar 95 tesur upp, en á Hólahátíð 2017 er fólk hvatt til þess að koma sínum hugmyndum um betri kirkju á sama hátt til skila.
Á laugardagsmorgni kl. 09:00 verður lagt af stað í fjórðu árlegu Pílagrímsgöngu frá Gröf á Höfðaströnd, og gengið eftir Hallgrímsveginum að Hóladómkirkju þar sem fram fer endurnýjun skírnarinnar og altarisganga.
Laugardagskvöldið einkennist af þýskum matargerðarhefðum, en þá mun matreiðslumeistarinn Þórir Erlingsson útbúa veisluborð í anda þeirrar matargerðar sem var á tíma Marteins Lúther í Þýskalandi, hægeldað yfir opnum eldi, ýmsar tegundir af vandlega krydduðum pylsum, þ.m.t. bratwurst, ásamt sauerkraut og öl á krana, brugguðu eftir þýskum hefðum og öðru góðgæti.
Á sunnudeginum hefst dagsskráin með Tón-leikhúsinu, en þar mun leikkonan Steinunn Jóhannesdóttir, ásamt einsöngvurum, rekja sögu siðbótarkvennanna Elísabetar Cruciger og Halldóru Guðbrandsdóttur, með aðstoð ReykjavikBarokk. Það eru tónlistarkonurnar Diljá Sigursveinsdóttir og Guðný Einarsdóttir sem hafa sett tón-leikhúsið saman og eru listrænir stjórnendur
Eftir hádegi, kl. 14:00 fer fram prestvíglsa þar sem mag.theol. Stefanía Guðlaug Steinsdóttir verður vígð til þjónustu við Lögmannshlíðarprestakall. Að veislukaffi loknu í Hólaskóla verður samkoma þar sem Auður Eir Vilhjálmsdóttir flytur hátíðarræðu og ReykjavikBarokk flytur tónlist.
/Fréttatilkynning