Hefur Baltasar betur í baráttunni um Everest?
Kvikmyndaverin Sony og Universal eiga nú í harðri baráttu um hvort þeirra verður fyrra til með kvikmynd um Everest, hæsta fjall heims. Báðar kvikmyndirnar hafa orðið fyrir nokkrum skakkaföllum, aðalleikarar hafa helst úr lestinni og fjármögnun í uppnámi.
Þetta kemur fram á vef Deadline. Þar segir enn fremur að kvikmyndaverin bæði ætli að láta myndirnar ganga upp, þrátt fyrir nokkur ljón í veginum og Universal - með Baltasar í broddi fylkingar - hafi forystuna sem stendur.
Myndirnar tvær fjalla um tvo gjörólíka atburði á hæsta fjalli heims. Önnur - Sonymyndin - segir frá breska fjallgöngugarpinum George Mallory sem heillaði bresku þjóðina upp úr skónum með fjallgöngum sínum á Everest.
Doug Liman á að leikstýra myndinni en hann hefur nú misst aðalleikarann sinn, Tom Hardy. Benedict Cumberbatch hefur verið orðaður við aðalhlutverkið sem og Tom Hiddlestone en stefnt er að því að hefja tökur í mars á næsta ári.
Hin - mynd Baltsars - fjallar um mikinn harmleik upp á fjallinu þegar átta fjallgöngumenn létust í miklu óveðri 1996. Sömu atburðum var gert góð skil í bókinni Into Thin Air eftir John Krakauer. Baltasar hefur skoðað tökustaði í Nepal og vill gera hluta af henni hér á landi.
Myndin hefur einnig lent í smá mótbyr því framleiðslufyrirtækið Emmett/Furla er hætt við eftir að ekki náðist samkomulag um hversu mikið myndin mætti kosta. Universal er þó sagt ætla að finna aðra fjármögnunaraðila svo tökur geti hafist - samkvæmt áætlun - í nóvember.
Morgunblaðið greinir frá þessu í dag.
