Hlýnar um helgina en kólnar svo aftur

Íbúar á Norðurlandi vestra hafa orðið eitthvað varir við að það hefur haustað og styttist í veturinn. Snjórinn hefur þó haldið sig til hlés að mestu þetta haustið, og eiginlega mest allt árið, en síðustu dagana hefur þó krítað á kolla og eitthvað niður eftir hlíðum.
Hitastigið hefur skriðið niður undir frostmark síðustu daga og mun halda sig í námunda við 2-3 gráður næsta sólarhringinn. Heldur hlýnar um helgina og samkvæmt veðurspá Veðurstofunnar gæti hitinn farið í allt að 10 gráðum á laugardaginn og veður víðast hvar skaplegt á Norðurlandi vestra, þó sólin verði sennilega ekki áberandi og láti jafnvel ekki sjá sig.
Á mánudaginn er gert ráð fyrir að það kólni aftur og er reiknað með talsverðri úrkomu á Norðurlandi. Það gæti haft í för með sér slyddu og él á fjallvegum í það minnsta og ferðalangar því hvattir til að hafa varann á sér.