Hrikalega gott í saumaklúbbinn - eða bara í Eurovisionpartýið
„Það er fátt betra en gott salat eða pestó á kexið eða snittubrauðið og gaman að geta boðið upp á þess háttar gúmmelaði, auk hins hefðbundna camembert osts og vínberja. Ekki skemmir fyrir hafa smá rautt eða hvítt með, eftir smekk, og að sjálfsögðu að kveikja á kertaljósum. Hér eru nokkrar hrikalega góðar uppskriftir sem hafa verið á boðstólnum hjá mínum saumaklúbbi en það ber að varast að það er með eindæmum erfitt að hætta borða eftir að byrjað er," segir í matgæðingaþætti Feykis í 20. tbl. ársins 2016. Þar birtust nokkrar uppskriftir sem henta vel í saumaklúbbinn og örugglega ekki síður í Eurovisionpartýið sem vafalaust verður haldið víða í kvöld.
Ómótstæðilegt ostasalat
1 mexíkóostur
1 hvítlauksostur
1 dós sýrður rjómi
1½ msk grískt jógúrt
1 rauð paprika, smátt söxuð
¼ púrrulaukur, smátt saxaður
vínber, magn eftir smekk
Aðferð:
Hrærið sýrða rjómanum og gríska jógúrtinu saman. Skerið ostana niður í litla bita og blandið saman við sósuna. Skerið papriku og púrrulauk smátt og blandið saman við. Skerið að lokum nokkur vínber, magn fer eftir smekk. Blandið saman og hrærið vel í salatinu.
Besta pestó í heimi
1 krukka tómatpestó, frá t.d. Sacla
1½ dl svartar ólífur, saxaðar
1 dl döðlur, saxaðar
1 poki af muldum pekanhnetum
½ krukka af feta osti (má setja smá olíu með)
smá hvítlaukur (t.d. tæplega tsk af hvítlauksmaukinu frá Blue Dragon)
Aðferð:
Varúð, þetta pestó er syndsamlega gott! Allt er blandað vel saman og borið fram með saltkexi eða snittubrauði.
Ofnbakaður brie með mangó chutney
1 stk brie
2 tsk karrýduft
1 krukka (um 340 g) mango chutney
1 bolli saxaðar pekanhnetur
Aðferð:
Hitið ofninn á 175°C. Stráið karrýdufti yfir ostinn og á hliðar hans og nuddið því aðeins inn í hann. Látið ostinn í ofnfast mót og hellið mango chutney yfir. Stráið því næst hnetunum yfir ostinn.
Bakið í um 15 mínútur eða þar til osturinn er orðinn mjúkur að innan og hneturnar eilítið gylltar.
Berið fram með baquette eða kexi, vínberjum og sultu.
Bráðhollt og gott Guacamole
3 vel þroskuð avocado
1-2 tómatar
½ rauðlaukur
lítil hnefafylli af kóríander
1 tsk salt (eða eftir smekk)
Aðferð:
Allt sett saman í matvinnsluvél í smá stund (ekki alveg í mauk) eða saxað mjög fínt. Þetta er svakalega ferskt og gott með doritos. Einnig hrikalega gott með steiktum kjúklingabringum og nóg af því!
Verði ykkur að góðu!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.