Húnaþing vestra og Sveitarfélagið Skagafjörður fá byggðastyrk til lagningar ljósleiðara
Samgönguráðherra hefur ákveðið að ráðstafa sérstökum 100 milljón króna byggðastyrk fyrir árið 2018 til að auðvelda strjálbýlum sveitarfélögum að standa straum af lagningu ljósleiðara líkt og gert var fyrir árið 2017. Húnþing vestra og Sveitarfélagið Skagafjörður eru meðal 14 sveitarfélaga sem eiga kost á styrk úr sjóðnum að þessu sinni. Sjái sveitarfélag sér ekki fært að fara í framkvæmdir á árinu getur óráðstafaður styrkur safnast upp og færst til ársins 2019.
Að þessu sinni er beitt tvenns konar aðferð við úthlutun byggðastyrksins. Annars vegar er 10 milljónum króna úthlutað beint til tiltekinna „brothættra byggða“. Hins vegar er 90 milljónum króna úthlutað þannig að metin er fjárhagsstaða sveitarfélaga, meðaltekjur sveitarfélags á íbúa og hlutfall ótengdra íbúa er reiknað, byggðaþróun síðustu tíu ára er metin og tekið er mið af þéttleika styrkhæfra staða og fjarlægð byggðar frá þjónustukjarna. Miðað er við að byggðastyrkur sé að hámarki um 20% af kostnaðarhlut sveitarfélags að ljósleiðaravæðingu sveitarfélagsins lokinni.
Húnaþing vestra fær næst hæsta styrkinn eða 11,7 milljónir króna og Skagafjörður fær 5,8 milljónir króna. Sjá má byggðastyrkina til sveitarfélaganna hér.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.