Húnaþing vestra telur sameiningu ekki koma til greina

Frá Hvammstanga. Mynd:Nat.is.
Frá Hvammstanga. Mynd:Nat.is.

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í gær var fjallað um hugmyndir um sameiningu allra sveitarfélaganna á Norðurlandi vestra. Kom þar fram að sveitarfélögin Skagafjörður og Skagabyggð séu að hefja formlegar sameiningarviðræður og var stofnuð samninganefnd fyrir viðræður þeirra í milli nú í vikunni. Formaður samninganefndarinnar og oddviti Skagabyggðar, Vignir Sveinsson, sagði í samtali við fréttastofu að hann sjái fyrir sér að allt svæðið geti orðið eitt þar sem innviðir sveitarfélaganna byggi á svipuðum greinum.  „Mín skoðun er sú að þetta svæði sé það líkt að það geti alveg orðið,” segir hann. „Greinarnar okkar eru náttúrulega sjávarútvegur, landbúnaður og þjónusta. Þannig að ég sé alveg fyrir mér að þetta svæði geti verið eitt. Alveg algörlega,” sagði Vignir í samtali við fréttastofu.

Unnur Valborg Hilmarsdóttir, oddviti Húnaþings vestra, segir hins vegar að eins og staðan sé í dag komi allsherjarsameining sveitarfélaganna níu ekki til greina. Slík sameining sé afar flókið mál, svæðið sé landfræðilega mjög stórt og allir þjónustuþættir verði að vera til staðar á hverjum stað. Áfram verði þó fylgst með framvindu viðræðna.

Forsvarsmenn sveitarfélaga í Austur Húnavatnssýslu; Blönduósbær, Skagaströnd og Húnavatnshreppur, munu hittast í lok ágúst og taka afstöðu til sameiningarviðræðna. Adolf Berndsen, oddviti á Skagaströnd, segir við fréttastofu að þau ætli að hafa samflot í málinu, hvernig sem því muni lykta.

Fleiri fréttir