Húni.is liggur niðri í kjölfar kerfishruns 1984
Eins og margir hafa tekið eftir hefur húnvetnski fréttamiðillinn Húni.is legið niðri í vikutíma eða allt frá því að kerfishrun varð hjá hýsingaraðila vefsins 1984. Húnahornsmenn eru niðurbrotnir yfir ástandinu en vonast til að úr rætist sem fyrst.
„Í rúmlega 16 ára sögu Húnahornsins höfum við aldrei lent í öðru eins,“ segir Ragnar Z Guðjónsson ritstjóri vefsins. Algjört kerfishrun varð hjá netþjónustufyrirtækinu 1984 síðastliðinn miðvikudag en það hýsir vef Húnahornsins og tölvupóst umsjónarmanna vefsins ásamt heimasíðum fjölmargra fyrirtækja og félaga hérlendis.
Fyrirtækið hefur sleitulaust unnið að því að koma vefsíðum og tölvupóstum í lag, ennþá eru vefir ekki orðnir virkir og þar á meðal er huni.is.
„Við erum algjörlega niðurbrotnir yfir þessu, að vefurinn skuli vera niðri þetta lengi. Tölvupósturinn komst í lag seint á föstudaginn en í gær datt hann aftur út,“ segir Ragnar og gagnrýnir um leið lélegt upplýsingaflæði frá fyrirtækinu 1984. „Allan þennan tíma hafa þeir ekki getað svarað því hversu langan tíma við þurfum að bíða eftir því að vefurinn komist í gagnið. Og enn í dag erum við í algjörri óvissu um það. Kemst hann í lag í kvöld, á morgun eða eftir viku? við höfum ekki hugmynd um það og það er ömurleg staða.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.