Í FÍNU FORMI á Hvammstanga á morgun

Kór eldri borgara á Akureyri “Í FÍNU FORMI” heldur tónleika í Félagsheimili Hvammstanga á morgun, þriðjud.15. maí kl. 17:00. Söngstjóri er Petra Björk Pálsdóttir, meðleikari Valmar Valjaots og einsöngvari Þór Sigurðsson. Allir eru hjartanlega velkomnir og enginn aðgangseyrir, segir í tilkynningu frá kórnum.

Að sögn Jónasínu Arnbjörnsdóttur, formanns kórsins, eru u.þ.b. 60 einstaklingar sem skipa kórinn þegar allir mæta. Æft er tvisvar í viku tvo tíma í senn í samverusal eldri borgara í Víðilundi á Akureyri þar sem er fín aðstaða.

„Við höldum árlega Vortónleika, í ár þann 14. apríl í Akureyrarkirkju. Jólatónleikarnir eru á sínum stað og annað hvort syngur kórinn einn eða með öðrum kórum. Síðan við ýmis tækifæri t.d. 12. apríl á ráðstefnu í Háskólanum á Akureyri sem var tileinkuð eldri borgurum og bar yfirskriftina „Maður er manns gaman“. Þá tókum við þátt í kóramóti á Dalvík 22. apríl þar sem mættu fimm kórar eldri borgara af Norðurlandi og síðast sungum við í messu í Akureyrarkirkju á Uppstigningadag, sem er dagur aldraðra… Þetta er svona það helsta,“ segir Jónasína aðspurð um starfsemi kórsins sem greinilega er þónokkur.

Kveikjan að ferðinni í Vestur- Húnavatnssýslu segir Jónasína vera að árlega fer kórinn í þriggja daga vorferð og varð þetta svæði fyrir valinu nú sem er auðvitað spennandi. Þá hefur kórinn sungið á viðkomandi stöðum og þess vegna var félagsheimilið á Hvammstanga fyrir valinu. „Vonum sannarlega að við sjáum sem flesta!,“ segir Jónasína að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir