Íslenskt lambakjöt – fyrsta verndaða afurðaheitið á Íslandi
Matvælastofnun hefur skráð íslenskt lambakjöt sem verndað afurðarheiti á grundvelli laga nr. 130 frá 2014 um vernd afurðaheita sem geta vísað til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu. Enska útgáfan, Icelandic lamb er einnig skráð. Lambakjöt er fyrsta íslenska afurðin sem fær vernd samkvæmt lögunum. Þar með er lambið komið í flokk með Parma- skinku, Kampavín, Camembert de Normandie ost og Kalix Löjrom kavíar.
Tilgangur laganna er að vernda afurðaheiti til að stuðla að neytendavernd, auka virði afurða og koma í veg fyrir óréttmæta viðskiptahætti. Íslensku lögin taka mið af reglugerð Evrópusambandsins um gæðakerfi fyrir landbúnaðarafurðir og matvæli.
Samkvæmt sérstökum samningi Íslands og Evrópusambandsins mun vernd afurðaheitins gilda á öllu evrópska efnahagssvæðinu. Umsækjandi verndunina var Markaðsráð kindakjöts sem mun í framhaldinu sækja um evrópsku vottunina. Sjá nánar upplýsingar um hana hér: https://ec.europa.eu/agriculture/quality/schemes_en
„Þetta er mjög mikilvægt skref fyrir okkur til að undirstrika sérstöðu okkar“ segir Svavar Halldórsson, framkvæmdastjóri Markaðsráðs kindakjöts. „Við erum stolt af því að lambakjötið, þjóðarréttur Íslendinga, sé fyrsta íslenska afurðin sem hlýtur þennan heiður.“
Rúmlega 1.400 afurðir eru þegar skráðar í evrópska kerfinu og tæplega 200 aðrar eru í umsóknarferli. Sjá nánar: http://ec.europa.eu/agriculture/quality/door/list.html?locale=en Þar má nefna nokkrar af frægustu matvörum Evrópu eins og ítalska Parma skinku, franskan Camembert de Normandie ost og sænskan Kalix Löjrom kavíar.
„Flestar af fínustu matvörum Evrópu hafa þessa vottun og með þessari vottun er Íslenska lambakjötið komið í sama flokk og bestu ostarnir, olíurnar og hráskinkurnar í Evrópu. Það mun hjálpa okkur í markaðssetningu gagnvart erlendum ferðamönnum hér á landi og sömuleiðis inn á kröfuharða sérmarkaði erlendis“ segir Svavar Halldórsson.
/Fréttatilkynning
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.