Jón Grétar hlýtur Menntaverðlaun Háskóla Íslands

Handhafar Menntaverðlauna Háskóla Íslands 2018. Jón Grétar er akkúrat fyrir miðju, í hvítri skyrtu og með gleraugu. Mynd af vef HÍ.
Handhafar Menntaverðlauna Háskóla Íslands 2018. Jón Grétar er akkúrat fyrir miðju, í hvítri skyrtu og með gleraugu. Mynd af vef HÍ.

Tuttugu og fimm stúdentar víðs vegar af landinu tóku við Menntaverðlaunum Háskóla Íslands við brautskráningar úr framhaldsskólum landsins nú í maí og júní. Þetta er í fyrsta sinn sem verðlaunin eru afhent og var Jón Grétar Guðmundsson úr Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra einn verðlaunahafa.

Menntaverðlaun Háskóla Íslands eru veitt þeim nemendum sem staðið hafa sig framúrskarandi vel í námi sínu til stúdentsprófs auk þess að hafa náð eftirtektarverðum árangri á sviði lista eða íþrótta, átt mikilvægt framlag til skólafélaga eða skólans eða sýnt þrautseigju við erfiðar aðstæður.

Hver framhaldsskóli gat tilnefnt einn nemanda til verðlaunanna og bárust alls 25 tilnefningar í þetta fyrsta sinn sem verðlaunin eru afhent. Verðlaunin felast í veglegri bókargjöf, viðurkenningarskjali frá rektor Háskóla Íslands og styrk sem nemur upphæð skráningargjalds fyrsta skólaárið í Háskóla Íslands, kjósi verðlaunahafinn að hefja nám þar. Nemendur sem hljóta Menntaverðlaun Háskóla Íslands við útskrift úr framhaldsskóla geta jafnframt sótt um styrk úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands en úthlutað verður úr sjóðnum í næstu viku.

Jón Grétar Guðmundsson býr á Sauðárkróki, sonur Kristjönu Jónsdóttur og Guðmundar Svavarssonar. Jón Grétar lauk námi á  hagfræðibraut FNV, sem „því miður er verið að hætta að kenna þrátt fyrir að námið sé skemmtilegt og undirbúningurinn góður fyrir framtíðina,“ eins og Jón kemst að orði. En hver skyldu framtíðaráformin vera hjá nýstúdentinum.

„Ég stefni á að komast til Bandaríkjanna í háskóla á fótboltastyrk. Ég ætlaði að reyna að fara út í haust en það er líklegt að það takist ekki og mun ég þá reyna á næsta ári. Í vetur ætla ég að læra viðskiptafræði í Háskólanum í Reykjavík.“

Jón Grétar er ánægður með skólann sinn og hvetur alla sem eru að hugsa um hvaða framhaldsskóla þeir eigi að velja í haust að velja FNV. „Þeir munu ekki sjá eftir því,“ segir hann. „Að vera í FNV var frábært, allir þekkja alla og félagsskapurinn er æðislegur. Félagslífið er gott og andinn í skólanum er góður, svo er starfsfólkið í skólanum frábært og vill allt fyrir mann gera. Ég hvet alla til að sækja um í FNV og fara í skólann þar sem þetta er góður skóli þar sem maður eignast fullt af nýjum vinum og lærir nýja hluti,“ segir Jón Grétar sem starfar í sumar í móttöku Bílaverkstæðis KS.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir