Kindur sóttar á afrétt í þorrabyrjun

Síðasta sunnudag voru farnir a.m.k. tveir leiðangrar eftir kindum sem ekki skiluðu sér heim úr afrétt í haust. Annars vegar var farið í Staðarfjöllin í Skagafirði og hins vegar Vesturárdal í Miðfirði.
Þrír menn á sleðum renndu upp í Molduxaskarðið og fram Rangalann og rákust á tíu kindur. Náðu þeir að mynda slóð sem kindurnar voru reknar eftir og niður Ganginn þar sem kerra beið þeirra og kindunum komið til síns heima. „Mig grunaði að þær væru niðri á Ytri-Rngalanum enda ná þær beit og rennandi vatni þar. Ekki voru þær þar svo við héldum áfram til suðurs, skömmu seinna rákumst við á þær og ákváðum að reyna að koma þeim til austurs og niður Ganginn þar sem það væri styttra en norður í Molduxaskarðið og mun betra færi fyrir kindurnar,“ segir Ingólfur Jón Geirsson einn leiðangursmanna. Hann segir ferðina hafa gengið nokkuð vel enda hægt farið.
Bjarki Haraldsson á Hvammstanga fór ásamt öðrum, á sleðum í Vesturárdal í Miðfirði og sóttu fjórar kindur sem þar voru. Voru þær frá Uppsölum í Miðfirði. „Við vorum ekki lengi að finna þær og koma þeim í kerru. Og af því að við vorum þarna vorum við beðnir að ná í hrossin upp á Hálsana og koma með þau niður líka,“ segir Bjarki.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.