Kláraði peysufötin fyrir fimmtugsafmælið

Handavinnukonan Hlíf Sumarrós Hreinsdóttir á Sauðárkróki sagði frá broti af handavinnunni sinni í þættinum Hvað ertu með á prjónunum? í 30. tölublaði Feykis 2017. Hún hefur verið afkastamikil handverkskona, allt frá því hún prjónaði fyrsta skylduverkið sitt í barnaskóla og um fermingu tók hún þá ákvörðun að sauma á sig íslenskan búning fyrir fimmtugt. Hún stóð við það og á sjáum við afraksturinn á einni myndanna sem fylgja.
Hve lengi hefur þú stundað hannyrðir?
Ég er búin að vera með handavinnu í höndunum má segja síðan ég var um sjö til átta ára gömul. Í minningunni er fyrsta handverkið mitt gulur dúkur með áteiknuðu blómamynstri. Þennan dúk gaf mágkona föður míns mér og kenndi mér að sauma lykkjuspor og aftursting. Fyrsta prjónaverkið mitt er blár bangsi sem var skylduverk í skólanum.
Hvaða handavinnu þykir þér skemmtilegast að vinna?
Mér finnst í rauninni gaman að allri handavinnu, skiptir engu hvort það er prjón, hekl, útsaumur og eða saumaskapur í vél, bútasaumur sem ég er svo til nýbyrjuð í og finnst mjög
skemmtilegur. Ég fer á bútasaumshelgi á Löngumýri á haustin og prjónahelgi á vorin. Ég lærði að gimba eftir að ég flutti hingað á Krókinn, það er mjög gaman og ég hef gert þannig teppi handa barnabörnunum mínum. Mig hefur alltaf langað til að læra á prjónavél.
Hverju ertu að vinna að um þessar mundir?
Ég er með nokkur ábyrjuð stykki í vinnslu núna. Tók að mér útsaum fyrir móður mína, er að prjóna skírnagjöf á eina litla frænku og galla á ömmubarnið mitt. Svo fékk ég skilaboð frá vinkonu dóttur minnar í Bretlandi um að ég mætti fara fitja upp, það væri ein lítil á leiðinni. Ég hef áður prjónað fyrir hana því dóttur mína langaði svo til að gefa henni eitthvað sem ég gerði.
Hvaða handverk sem þú hefur gert ert þú ánægðust með?
Ég er ánægðust með peysuföt sem ég saumaði mér fyrir tveimur árum síðan. Það er dálítil saga á bakvið það. Þegar ég var að alast upp átti móðir mín kökubauk sem á voru myndir af konum í alls konar fínum fötum; upphlut, peysufötum, og öllum hinum búningunum sem konur klæddust hér áður fyrr. Ég hugsaði alltaf þegar ég sá þennan bauk að svona búning langaði mig til að eignast. Um fermingaraldur tók ég þá ákvörðun að einhvers konar búning skyldi ég eignast fyrir fimmtugsafmæli mitt. Það tókst, ég fór á námskeið hjá Hildi Rosenker í Annríki haustið 2014 og kláraði tveimur dögum fyrir afmælið, 3. maí 2015.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.