Klaufirnar klipptar í flottheita stól
Nú er sá tími að kindum er sleppt á fjall og þá er nú betra að þær séu í þokkalegu standi fyrir sumarið. Eitt af því sem bændur þurfa að huga að áður en ærnar fá að fagna frelsi er að snyrta klaufir þeirra, oftast er það gert með því að setja þær á rassinn og bogra svo yfir þeim meðan klippt er, og getur það verið hið mesta erfiðisverk.
Ármann Pétursson á Neðri-Torfustöðum i Miðfirði hefur útbúið fyrirtaks klaufsnyrtistól sem hann býður sinum kindum sæti í meðan snyrtingin fer fram. Hönnun Ármanns er létt og meðfærileg, í stólbakinu er net sem skipta má um ef með þarf og belti heldur kindunum meðan þær eru snyrtar.
Í viðtali við Bændablaðið segist Ármann hafa selt í kringum 50 stóla og séu þeir komnir víða um land. Stólarnir eru sagðir auðveldir í notkun og meðfærilegir og menn séu ánægðir með að fá tæki sem létt geti þeim vinnuna.