Kvennafrídagurinn 2010 – konur gegn kynferðis ofbeldi
Árið 2010 markar merk tímamót í kvennasögunni og í ár er þessara atburða í sögunni minnst sérstaklega :
- 102 ár liðin frá því að konur fengu fyrst kosningarétt í sveitarstjórnarkosningum
- 95 ár liðin frá því að konur fengu kosningarétt í Alþingiskosningum
- 80 ár eru liðin frá stofnun Kvenfélagasambands Íslands
- 40 ár frá stofnun Rauðsokkahreyfingarinnar
- 35 ár frá fyrsta Kvennafrídeginum
- 30 ár frá forsetakjöri frú Vigdísar Finnbogadóttur
- 20 ár frá stofnun Stígamóta
- 15 ár frá samþykkt Pekingáætlunarinnar, um aukna þátttöku kvenna í stjórnmálum.
Af þessu tilefni voru stofnuð samtök sem kallast Skotturnar en að þeim standa 19 félög og samtök kvennahreyfinga á Íslandi. Til að minnast ofangreindra tímamóta hafa samtökin skipulagt alþjóðlega viðburðadagskrá dagana 24.–25. október nk. ( Sjá www.kvennafri.is ).
Það er haldið uppá 35 ára afmæli kvennafrídagsins með margvíslegum hætti. Meðal annars leggjum við áherslu á launajafnrétti og eru konur hvattar til að ganga út af vinnustöðum sínum kl.14:25 mánudaginn 25. október 2010, þegar þær eru samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands um launamun kynjanna, búnar að vinna fyrir þeim 66% af launum karla sem þær báru úr býtum árið 2009. Í Skagafirði verður opið hús þennan dag í Miðgarði frá kl. 15 og dagskrá milli kl. 16 og 17.
Kvennafrídagurinn 2010 er tileinkaður baráttunni gegn kynferðis ofbeldi. Margir hafa orðið varir við fjáröflunarátak gegn kynferðisofbeldi með sölu kynjagleraugnanna sem eiga að minna okkur á að sjá konur og karla, stráka og stelpur. Við viljum nota þetta tækifæri til að þakka Skagfirðingum góða þátttöku í þessu átaki og síðustu kynjagleraugun verða seld í Miðgarði 25.10. n.k.
Hluti af þessu átaki er að Skotturnar vekja athygli á bók Þórdísar Elvu Þorvaldsdóttur „ Á Mannamáli“ sem kom út árið 2009 og hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin það ár. Í bókinni er fjallað um eitt alvarlegasta samfélagsmein okkar tíma, kynferðis ofbeldi á mannamáli. Kynferðisbrot kosta samfélagið á annan milljarð á hverju ári auk þess langvarandi sársauka og skaða sem brotaþolarnir glíma við, jafnvel allt sitt líf. Umfang þessara brota er gífurlegt. Samkvæmt niðurstöðum íslenskrar rannsóknar má ætla að fimmta hver stúlka á Íslandi sé misnotuð fyrir 18 ára aldur og tíundi hver drengur. Fæstir brotamannanna gjalda þó fyrir verk sín. Að sama skapi eru talsvert fleiri Íslendingar beittir kynferðisofbeldi á fullorðinsárum en í nágrannalöndum okkar. Bók Þórdísar Elvu er mikilvægt lóð á vogarskálarnar og sönnun þess að við getum breytt umræðunni, lögunum og bætt hlutskipti brotaþola á Íslandi með því að vekja alla til umhugsunar og skilnings á vandanum. Í ritdómum um bókina segir m.a.:
„ Þetta er ekki bók um ofbeldi. Þetta er bók um réttlæti.“ Andri Snær Magnason rithöfundur
„Nauðsynleg lesning öllum sem eiga dóttur, mömmu, frænku eða systur en líka bróður, pabba, son eða frænda. Bók sem á erindi til allra.“ Erla Hlynsdóttir/DV
Sem innlegg í þessa baráttu hefur Soroptimistaklúbbur Skagafjarðar ákveðið að gefa eintök af bókinni „ Á Mannamáli“ á hvert skólabókasafn í Skagafirði þ.e. Árskóla, Grunnskólann Austan Vatna, Varmahlíðarskóla, Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra og Háskólann á Hólum. Það er ósk okkar að bókin nýtist bæði til fræðslu nemenda og starfsfólks þessara skóla þannig að í samfélagi okkar verði talað á mannamáli og með skýrum rómi gegn kynferðis ofbeldi.
f.h. Soroptimistaklúbbs Skagafjarðar
Kristjana Jónsdóttir, formaður
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.