Lambakjöt er verðmæt vara
Í samstarfi við IKEA, Kjötkompaníið, Markaðsráð kindakjöts, Bændablaðið og sauðfjárbændur á Suðurlandi blása bændur bjartsýni í brjóst á fundi í Íþróttahúsinu á Hellu laugardaginn 6. janúar 2018 kl. 10.30. Fundarefnið er markaðssetning á lambakjöti og fjölbreytt tækifæri sem bíða íslensks landbúnaðar handan við hornið. Að loknum erindum verður fundargestum boðið í mat með léttum veitingum, öllum að kostnaðarlausu.
10.000 manns njóta veitinga í IKEA
Þórarinn Ævarsson framkvæmdastjóri IKEA mun fjalla um magnaðan árangur í sölu landbúnaðarafurða í IKEA versluninni á Íslandi. Þar eru allt upp í 10 þúsund manns á dag sem njóta veitinga þegar mest er. IKEA hefur selt afurðir sem hafa verið lítt vinsælar og því ódýrar, t.d. dæmis lambaskanka. Skankarnir hafa verið í boði í mörg ár en nú leitar IKEA leiða til að nýta fleiri hluta lambsins. Þórarinn mun fara yfir það á fundinum en líka segja frá því að bakaríið í IKEA notar lambafitu ásamt olíu til djúpsteikingar og notast við gamlar ömmuuppskriftir á kökum sem renna út eins og heitar lummur.
Lambakjöt sem lúxusvara
Veisluþjónusta og verslanir Kjötkompanísins í Hafnarfirði, sem Jón Örn Stefánsson rekur, hefur náð góðum árangri í sínu markaðsstarfi og selur vandaðar steikur og fjölbreyttar gæðavörur í sínu kjötborði. Jón Örn og hans starfsfólks notar aðeins hágæða kjöt og fær sérvalda lambahryggi sem eru á bilinu 3,3-3,5 kg. Vinsælasti rétturinn hjá Kjötkompaníi er Lambakonfekt, kótelettur sem seldar eru á 5.990 kr. kílóið. Kjötborðið í verslunum þeirra er sannkallað augnakonfekt og verður sýnishorn úr því á fundinum.
Bændur þurfa að njóta velgengni
Þórarinn og Jón Örn munu segja frá því hvernig þeir hafa ásamt sínu starfsfólki markaðssett lambakjöt og landbúnaðarafurðir með gríðarlega góðum árangri. Annar með því að ná sem hagkvæmustu verði fyrir neytendur en hinn stílar á dýra gæðavöru, en báðir eru að gera frábæra hluti. Það er mikilvægt að slík velgengi skili sér í betra verði til bænda. Auk þeirra Þórarins og Jóns Arnars mun Oddný Steina Valsdóttir, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda ávarpa fundinn og Svavar Halldórsson mun fara yfir kynningar- og markaðsmál.
Fundarboðendur eru bændurnir Erlendur Ingvarsson, Skarði og Jón Bjarnason í Skipholti ásamt Ásmundi Friðrikssyni alþingismanni.
Fundurinn hefst kl. 10.30 og reiknað með fundarlokum kl. 13.00.
Mikilvægt er að allir skrái sig til fundarins á vef Bændablaðsins, bbl.is. Gert er ráð fyrir góðri aðsókn og er sætafjöldi takmarkaður.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.