Lista- og menningarráðstefna og námskeið fyrir unglinga í verkefna- og viðburðastjórnun

Ráðstefnan verður haldin í Gömlu kirkjunni á Blönduósi. Mynd:FE
Ráðstefnan verður haldin í Gömlu kirkjunni á Blönduósi. Mynd:FE

Í lok apríl verður haldin á Blönduósi lista- og menningarráðstefnan Hérna!Núna! og er hún ætluð fyrir lista- og handverksmenn á Norðurlandi vestra. Hún verður haldin í Gömlu kirkjunni á Blönduósi, dagana 27. - 28. apríl. Markmið ráðstefnunnar er að aðilar úr lista- og menningarsamfélaginu hittist, kynnist og geti sagt frá og sýnt list sína og að vekja athygli á þeirri vinnu sem unnin er á svæðinu á sviði lista og menningar. Frá þessu er greint á vef Þekkingarsetursins á Blönduósi. 

Á ráðstefnunni er ætlunin að þátttakendur haldi stutta kynningu á sér og sínum verkum og komi í því skyni með ljósmyndir og/eða listaverk. Fyrirhugað er að halda sýningu í Kvennaskólanum meðan á ráðstefnunni stendur og í framhaldinu verður gefið út sýningarrit. 

Í tengslum við ráðstefnuna ætlar Þekkingarsetrið að bjóða þremur unglingum að taka þátt í námskeiði, þeim að kostnaðarlausu. Námskeiðið verður sex klukkustundir og fyrirhugað er að kenna á mánudögum og fimmtudögum í apríl.

Á námskeiðinu verður miðlað þekkingu sem nýtist í verkefna- og viðburðastjórnun, m.a. verður fjallað um áætlanagerð í tengslum við viðburðahald á borð við tónleika, listasýningar eða önnur skapandi verkefni og notkun á Adobe InDesign við gerð auglýsinga- og kynningarefnis. Námskeiðið höfðar því til allra sem hafa áhuga á að starfa á vettvangi afþreyingar, skemmtunar og upplifunar, t.d. leikhús, listagalleríum og við ferðaþjónustu.

Í framhaldi af námskeiðinu er reiknað með að nemendur taki þátt í ráðstefnunni Hérna!Núna! þar sem þeir fá að spreyta sig og nýta þá nýja þekkingu sem þeir hafa aflað sér á námskeiðinu. Greitt verður fyrir þá vinnu. 

Umsjónarmaður námskeiðsins er Melody Woodnutt, verkefnastjóri og listakona sem hefur viðtæka reynslu á sviði viðburðastjórnunar.

Þeir sem áhuga hafa á að sækja námskeiðið eru vinsamlegast beðnir að senda tölvupóst á skrifstofa@tsb.is eða hafa samband við skrifstofu Þekkingarsetursins í Kvennaskólanum í síma 452 4030 í síðasta lagi fyrir 25. mars.  

Nánari upplýsingar og dagskrá ráðstefnunnar verða auglýst síðar. Fyrirspurnir má senda á info@nwest.is eða hafa samband við skrifstofu Þekkingarsetursins í Kvennaskólanum í síma 452-4030. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir