Lögreglan á Norðurlandi vestra fær nýja bifreið
Lögreglan á Norðurlandi vestra fékk á dögunum nýja lögreglubifreið og er hún afar kærkomin viðbót við bílaflota embættisins. Bifreiðin, sem er af gerðinni Volvo V90 Cross Country, skartar nýju útliti sem svipar til merkinga lögreglubifreiða víða í Evrópu og eiga að auka öryggi lögreglumanna til muna, að því er segir á Facebooksíðu lögreglunnar á Norðurlandi vestra.
Samkvæmt upplýsingum frá bílamiðstöð ríkislögreglustjóra eru bifreiðar þessar afar öflugar í þau verkefni sem þeim eru ætluð, vélin er um 238 hestöfl og togið er mikið. Þá er hemla- og fjöðrunarbúnaður sérstyrktur ásamt tvöföldu rafkerfi. Mikil áhersla er lögð á öryggisbúnað sem er mikill og góður.
Allur lögreglubúnaður bifreiðarinnar er nýr, radartæki, upptökubúnaður og fjarskiptabúnaður. Eins og vænta má ríkir mikil ánægja meðal lögreglumanna embættisins með bifreiðina.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.