Lokanir fjallvega hafa sannað sig
Breytt aðferðafræði Vegagerðarinnar við að loka fjallvegum vegna ófærðar og veðurs hefur margsannað sig, segir á vef Vegagerðarinnar, en aðferðafræðinni hefur verið beitt í nokkur ár og hefur bætt ástand sem annars stefndi í óefni. Þær breytingar sem orðið hafa á samsetningu vegfarenda t.d. vegna stóraukinnar vetrarferðamennsku kalla á breytt verklag við lokanir fjallvega.
Lokanir hafa þó verið ítrekaðar að undanförnu, ekki vegna þess að þeim sé beitt í auknum mæli, heldur hefur veðrið kallað á lokanir. Óvenju mikið hefur verið um slæm veður undanfarnar vikur og nú þegar hefur þurft að grípa til lokana jafn oft og síðustu tvo vetur samanlagt. En ástandið er samt ekki eins slæmt og árið 2015, segir á vegagerdin.is.
„Það sýndi sig líka nýlega að verklagið skilar árangri því þegar nokkrir vegfarendur tóku upp á því að aka framhjá lokunum leiddi það til festu þeirra og nauðsyn þess að yfirgefa bílana. Það leiddi allt til þess að það tók mun lengri tíma en ella að opna að nýju þegar veður gekk niður og tækifæri gafst til að hreinsa veginn. Það sýndi sig að þolinmæði og bið þótt erfið sé skilar meiri árangri fyrir alla aðila. Vissulega eru til bifreiðar og ökumenn sem þess vegna geta ekið yfir Vatnajökul og komast því auðveldlega yfir Hellisheiði hvernig svo sem aðstæður eru. Flestir ökumenn aka á annarskonar farartækjum, ferðamenn vita ekki alltaf hvað tekur við þótt útlitið geti verið fínt við lokunarhliðið og jafnvel stundum líka í vefmyndavélum Vegagerðarinnar. Það þýðir ekki að öll leiðin sé greiðfær.“
Sjá nánar HÉR
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.