Málverka- og ljósmyndasýning á Maríudögum
Helgina 30. júní - 1.júlí verða Maríudagar haldnir á Hvoli í Vesturhópi kl 13.-18 báða dagana. Maríudagar hafa verið haldnir undanfarin ár í minningu Maríu Hjaltadóttur frá Hvoli í boði stórfjölskyldunnar frá Hvoli. Að þessu sinni verður boðið upp á málverkasýningu með verkum eftir systurdóttur Maríu, Ástu Björgu Björnsdóttur og ljósmyndasýningu á myndum Andrésar Þórarinssonar, eiginmanns Ástu. Ljósmyndirnar eru teknar á þessu ári í héraðinu og má þar líta mörg kunnugleg andlit.
María Hjaltadóttir var fædd 1. júlí 1924 í Reykjavík og ólst þar upp. Hún gerðist kaupakona að Lækjarmóti í Víðidal og kynntist þá eiginmanni sínum, Jósef Magnússyni, og bjuggu þau á Hvoli í Vesturhópi. María og Jósef eignuðust 10 börn en tvö þeirra dóu á unga aldri.
María var mjög listhneigð en lítill tími gafst til listsköpunar fyrr en börnin uxu úr grasi. Þá fór hún að mála og kenndi einnig myndmennt í nokkur ár við Vesturhópsskóla. María lést árið 1992, aðeins 68 ára að aldri.
Árið 2009, þegar María hefði orðið 85 ára, efndi stórfjölskyldan frá Hvoli til Maríudaga í fyrsta sinn með sýningu á málverkum eftir hana. Síðan hafa verið haldnar sýningar á verkum eftir ýmsa aðra listamenn. Einnig hafa listamenn verið að störfum á sýningunni. Þetta er í níunda sinn sem Maríudagar eru haldnir.
Í tengslum við Maríudaga verður haldin „hestamannamessa“ sunnudaginn1. júli að Breiðabólstað, sem er næsti bær við Hvol. Þá fara hestamenn ríðandi frá Hvoli, aðrir fara akandi og enn aðrir gangandi til messu og til baka að Hvoli þar sem drukkið verður messukaffi.
Kaffið er í boði stórfjölskyldunnar frá Hvoli og sóknarnefndar.
Maríudagar eru á Facebook á síðunni https://www.facebook.com/events/251783248891912/
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.