Námskeið í brúðugerð fyrir Eld í Húnaþingi

Eldfugl. Mynd: Greta Clough
Eldfugl. Mynd: Greta Clough

Undirbúningur fyrir hátíðina Eldur í Húnaþingi er nú í fullum gangi en hún verður haldin í fimmtánda sinn dagana 26. – 30. júlí nk. Meðal viðburða á hátíðinni má nefna tónleika Eyþórs Inga í Borgarvirki, heimamenn flytja tónlist á Melló Músika og hljómsveitin Buff verður með dansleik. Þá verður námskeið í tölvuleikjagerð, sirkusæfingum o.fl. og heimsmeistaramót í Kleppara svo eitthvað sé nefnt.

Á opnunarhátíðinni, sem haldin verður miðvikudagskvöldið 26. júlí, verður brúðuskrúðganga og er Handbendi Brúðuleikhús með kjötkveðjuhátíðarbrúður í smíðum fyrir hátíðina. Þetta er í fyrsta skipti sem slík skrúðganga fer fram á Hvammstanga og nú gefst öllum kostur á að búa til sína eigin kjötkveðjuhátíðarbrúðu eða grímu fyrir skrúðgönguna undir handleiðslu brúðusmiðsins Gretu Clough. Allir sem hafa smíðað eitthvað taka svo þátt í skrúðgöngunni með meistarastykkjum sínum. Stórar brúður verða gerðar úr ódýrum efnivið, eins og pappa og ýmsu öðru úr endurvinnslutunnunni, sem verður umbreytt í stórgerð tímabundin listaverk. Þemað verður „frumefni náttúrunnar“. Handbendi mun smíða þrjá eldfugla sem hver um sig verður með fimm metra vænghaf, - og eina brúðu til, sem er leyndarmál.

Þeir sem hafa áhuga á að smíða sér brúðu og taka þátt í skrúðgöngunni geta skráð sig með því að senda tölvupóst til Gretu á handbendi@gmail.com eða hringt í 611 4694 til að skrá sig. Dagsetningar smíðanna eru 19. og 22. júlí og gjald upp í efniskostnað (málningu, lím o.þ.h.) er kr. 1.000,- sama hvort komið er annan eða báða dagana.

Dagskrá og nánari upplýsingar er að finna á www.eldurihun.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir