Ný póstnúmer tekin upp í dreifbýli
Þann 1. desember mun Pósturinn gera nokkrar breytingar á póstnúmerum landsins. Fela þær í sér að sérstakt póstnúmer verður tekið upp á svæðum í dreifbýli sem áður féllu undir sama póstnúmer og næsti þéttbýliskjarni. Hægt verður að þekkja flest nýju póstnúmerin á því að síðasta talan í þeim hækkar um einn.
Aðeins er um að ræða tvær breytingar á póstnúmerum á Norðurlandi vestra. Dreifbýlið á svæðinu í kringum Skagaströnd fær póstnúmerið 546 og dreifbýlið umhverfis Varmahlíð fær númerið 561.
Í tilkynningu frá Póstinum er tekið fram að fólk þurfi ekki að grípa til neinna aðgerða, heldur muni Pósturinn sjá um að breyta skráningum í samstarfi við Þjóðskrá. Breytingarnar hafa ekki áhrif á dreifingu pósts og mun póstur berast til viðtakenda, jafnvel þótt eldra póstnúmer sé ritað við heimilisfang.
Fólk og fyrirtæki eru beðin um að uppfæra vefsíður og fleira slíkt ef tilefni er til og benda sendendum pósts á að nota rétt póstnúmer. Nýju póstnúmerin taka, sem áður sagði, gildi þann 1. desember 2017.
Að sögn Brynjars Smára Rúnarssonar, forstöðumaður markaðsdeildar Póstsins ættu nýju póstnúmerin ekki að hafa nein bein áhrif á fólk eða starfsemi fyrirtækja og stofnana. Hugsunin með þessum breytingum sé að láta póstnúmerin afmarka betur þéttbýli frá dreifbýli og einfalda þannig alla flokkun og dreifingu pósts sem hjálpi til við að koma pósti hratt og vel til skila.
Póstnúmer á landinu eru aðgengileg á postur.is/postnumer en þar er hægt að sjá hnitsett landfræðileg mörk póstnúmera.
Pósturinn vekur athygli á að hægt er að koma athugasemdum og spurningum varðandi nýju póstnúmerin á framfæri í gegnum netfangið postnumer@postur.is.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.