Nýtt og hagkvæmara samlag
Brátt fer framkvæmdum að ljúka á viðamikilli uppbyggingu Mjólkursamlags KS á Sauðárkróki í bili a.m.k. en framkvæmdir hafa staðið yfir frá því fyrsta skóflustungan var tekin að nýju húsi 6. júlí 2011. Að sögn Snorra Evertssonar mjólkursamlagsstjóra er búið að keyra mjólk í gegnum verksmiðjuna og lofar það góðu og er stefnt á að vinnsla verði hafin í lok október.
Með nýrri og betri tækjum munu afköst aukast um helming og segir Snorri að nýting hráefnis verði mun betri. Ætlunin er að vinna mysu í meira magni í framtíðinni til próteinframleiðslu en hún hefur lítið verið nýtt hjá KS hingað til.
Mikið hefur verið að gera hjá starfsfólki samlagsins undanfarið en frá 20. Ágúst sl. hefur mikið magn af mjólk komið frá MS á Akureyri til vinnslu á Króknum. Kemur það til af því að Akureyringar eru einnig að breyta vélasamstæðum hjá sér. Munurinn er sá að þeir þurftu að taka út gömlu vélarnar meðan KS byggði nýtt samlag við hliðina á því gamla og þurftu ekki að stöðva vélasamstæður sínar. Síðustu tvo mánuði hefur öll framleiðsla á föstum ostum farið fram á Sauðárkróki.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.