Refastofninn stendur í stað
Náttúrufræðistofnun Íslands hefur lokið við að meta stærð íslenska refastofnsins til ársins 2015 en samkvæmt því var fjöldi refa haustið 2015 að lágmarki 7.000 dýr. Niðurstöðurnar styðja eldra mat frá árinu 2014 sem sýndi fram á mikla fækkun í stofninum eftir 2008.
Refastofninn var í sögulegu hámarki á árunum 2005–2008 þegar hann taldi um 11 þúsund dýr að haustlagi ár hvert, eins og segir í tilkynningu frá NÍ. Stofnmat frá árinu 2014 sýndi hins vegar fram á 30% fækkun refa á árunum 2008–2010. Nýja stofnmatið sýnir að dýrunum hélt áfram að fækka til ársins 2012 þegar stofninn náði lágmarki, um 6.000 dýr að hausti, en þá hafði stofninn minnkað um 40% frá 2008. Stærð stofnsins virðist ekki hafa breyst að ráði til ársins 2015.
Á heimasíðu NÍ segir að rannsóknir stofnunarinnar á íslenska refastofninum byggist að miklu leyti á góðu samstarfi við veiðimenn um allt land sem senda hræ af felldum dýrum til krufninga og aldursgreininga.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.