Sækir sér menntun í viðleitni sinni til að auka virði landbúnaðarframleiðslunnar

Mikael Jens Halldórsson. Mynd af heimasíðu VMA.
Mikael Jens Halldórsson. Mynd af heimasíðu VMA.

Framtíð landbúnaðar á Íslandi og afkoma bænda er sívinsælt umræðuefni og ekki síst núna í aðdraganda kosninga. Margir vilja stokka kerfið upp en fáum tekist að setja fingurinn á hina réttu leið. Bent hefur verið á að ungt fólk eigi erfitt með að hefja búrekstur eða ná viðunandi rekstrarafkomu búsins. Mikael Jens Halldórsson, frá Molastöðum í Fljótum, vill þó reyna að auka virði afurðanna og sækir nú nám í matvælagreinum í VMA.

Á heimasíðu skólans er viðtal við Mikael Jens sem hóf nám í grunndeild matvæla- og ferðagreina nú á haustönn. Þar segir að hann hafi haft skýra sýn á hvert hann vildi stefna við val á námsbrautinni en eitt af markmiðunum væri að auka virði íslenska lambakjötsins sem liður í því að treysta rekstrargrunn sauðfjárframleiðslu.

„Sauðfjárbúskapur er erfið búgrein og bændur þurfa því að finna leiðir til þess vinna meira úr kjötinu og fá þannig meira fyrir afurðirnar. Það kom því upp í minn huga að afla mér þekkingar á sviði matvælavinnslu og eldamennsku. Í upphafi var ég með í huga að læra kjötiðnaðarmanninn en núna beinist áhuginn að því að fara í matreiðsluna að lokinni grunndeild.

Vissulega er kostnaðarsamt fyrir bændur að koma sér upp viðurkenndri aðstöðu til kjötvinnslu en hvers konar aukin vinnsla á kjötinu, bæði lamba- og nautakjötinu, með það í huga að selja beint frá býli, er allrar athygli verð og ostavinnsla er einnig áhugaverður kostur. Bændurnir á Brúnastöðum í Fljótum hafa einmitt verið að vinna og selja geita- og sauðfjárosta,“ segir Mikael í frétt skólans og bætir við að hann hafi mikinn áhuga á að leggja sín lóð á vogarskálarnar til þess að treysta búsetu í sveitum með því að auka verðmæti þeirra afurða sem þar eru framleiddar.

Hann bendir á að útilokað er fyrir fólk að lifa eingöngu á sauðfjárrækt eins og staðan sé í dag þar sem bændur þurfi að vera í öðrum störfum til hliðar við sauðfjárræktina, sem sé óviðunandi staða. „Ég vil búa áfram í Fljótum og taka þátt í að auka virði búfjárframleiðslunnar,“ segir Mikael en lengra viðtal má lesa við hann á heimasíðu Verkmenntaskólans á Akureyri.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir