Séríslenskur rostungsstofn sem hvarf við landnám

Beinaleifar rostunga hafa fundist aðallega á Suðvesturland, Vesturlandi og Vestfjörðum. Einn algengasti fundarstaðurinn er á sunnanverðu Snæfellsnesi. Þar skolast stundum bein, tennur og hausar á land eftir þungt brimrót. Einnig hafa beinaleifar fundist í húsagrunnum, við fornleifauppgröft og hafnargerð. Ljósmynd: H.J. Malmquist.
Beinaleifar rostunga hafa fundist aðallega á Suðvesturland, Vesturlandi og Vestfjörðum. Einn algengasti fundarstaðurinn er á sunnanverðu Snæfellsnesi. Þar skolast stundum bein, tennur og hausar á land eftir þungt brimrót. Einnig hafa beinaleifar fundist í húsagrunnum, við fornleifauppgröft og hafnargerð. Ljósmynd: H.J. Malmquist.

Hópur vísindamanna frá Íslandi, Danmörku og Hollandi hefur í fyrsta skipti staðfest með erfðarannsóknum og aldursgreiningum á beinaleifum rostunga að á Íslandi lifði sérstakur íslenskur rostungsstofn sem varð útdauður um landnám fyrir um 1100 árum. Veiðar á rostungum og verslun með afurðir þeirra, skögultennur, húðir og lýsi, eru líklegir orsakavaldar að útrýmingu dýranna. Aðrir þættir, einkum hlýnandi loftslag og eldgos, gætu hafa ýtt undir eyðingu tegundarinnar á Íslandi. Þessar niðurstöður eru meðal fyrstu hugsanlegra dæma um ofnýtingu á sjávarlífverum.

Tilvist rostunga á Íslandi á forsögulegum tíma og hvarf þeirra um og upp úr landnámi, hefur löngum valdið fræðimönnum heilabrotum. Hve mikið var um rostunga hér við landnám? Var um sér íslenskan stofn að ræða? Af hverju fer fáum sögum af rostungum við landið fljótlega eftir landnám? Í rannsókn sem Náttúruminjasafn Íslands átti frumkvæði að hefur alþjóðlegur hópur vísindamanna nú birt niðurstöður í tímaritinu Molecular Biology and Evolution þar sem ráðgátan um rostungana er leyst. Samanburður á erfðaefni hvatbera í beinaleifunum frá Íslandi við DNA raðir úr núlifandi rostungum og gömlum beinaleifum frá öðrum svæðum í Norður-Atlantshafi, sýnir að rostungarnir á Íslandi mynduðu sérstakan erfðafræðilegan stofn.

Greining á aldri beinanna með geislakoli sýndu ennfremur að íslenski rostungsstofninn var hér allt frá því fyrir um 7000 árum f.Kr. fram til 1200 árum e.Kr., en flest sýnanna voru frá því fyrir landnám. Írannsókninni er jafnframt fjallað um fundarstaði beinaleifa á Íslandi, alls um 230 talsins, og spáð í rostungsörnefni og sagnir af rostungum í fornritum og hvernig þessir þættir tengjast.

Greinina má nálgast HÉR

/Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir