Heimsfræga íslenska krúttpoppið heillar ekki / SIGGI SVEINS

Að þessu sinni er það skífuþeytarinn Sigurður Sveinsson – Siggi Sveins – sem svarar Tón-lystinni.  Einhverjir ættu að kannast við hann ef þeir stunduðu Hótel Mælifell á pastellituðum eitís áratugnum en þar þeytti kappinn skífum af miklum móð. Siggi eyddi æskuárunum á Hjallalandi í Skagafirði og á Króknum.

Hann segist spila smávegis á gítar, hljómborð og munnhörpu, þá helst fyrir sjálfan sig, en hann hefur líka mjög gaman af að syngja og flokkar það til dæmis til helstu tónlistarafreka að syngja vikulega gömlu íslensku sönglögin með sönghóp, taka lagið á kareokistöðum, vera plötusnúður á Mælifelli og í Reykjavík og einkasamkvæmum, sem hann gerir enn. Þá var Siggi í útvarpi í nokkur ár.

Uppáhalds tónlistartímabil?  Aðallega 8. og 9. áratugurinn. Tímabilið 1965 til 1985.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Það er aðallega gamla uppáhaldstónlistin og Xið 97,7. Skálmöld sker sig úr núna hérlendis.  Töff og flott rokkband.  Ojba rasta er skemmtilegt íslenskt band.  Heimsfræga íslenska krútt-poppið heillar ekki.  Daft Punk platan er góð. Sinfóníuhljómsveitin á tónleikum fær mig alltaf til að sperra eyrun. Kraftwerk í Eldborg á Airwaves í desember, fékk hárin til að rísa.

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Bara útvarpið, klassísk tónlist, íslensk og óskalagaþættir þar til Rás tvö kom.Addi frændi í Útvík átti eðal tónlist þegar ég var ungur drengur.  Þar kynntist ég mörgu af því sem ég kann best að meta, enn í dag.

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kassettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Time með ELO  (1981).  Var þá búinn að vera að hlusta á ELO í nokkur ár.

Hvaða græjur varstu þá með? Sambyggt útvarps- og kassettutæki í stereo.

Hvað syngur þú helst í sturtunni? Yfirleitt einhver dægurlög sem ég er með í höfðinu hverju sinni.

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Með mjög breiðan tónlistarsmekk, en verð að slökkva ef ég heyri í Leoncie eða lögum eins og I´m gonne be (500 miles) með Proclaimers.

Uppáhalds Júróvisjónlagið? Tónlistin í erlendu keppninni höfðar lítið til mín en yfirleitt einhver lög í þeirri íslensku.  Lagið hans Óskars Páls frænda, Is it true? sem Jóhanna Guðrún syngur, er með þeim bestu.

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð?  Fer mest eftir gestunum.  Oftast einhver flott tónlistarvideo frá 70s eða 80s, á skjánum og í hljóðkerfinu.  Um daginn var það Roger Waters – The wall á tónleikum í Berlín og Rolling stones – In the park 1969.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Eitthvað rólegt og afslappað t.d með Pink Floyd eða ELO.  Rólegur jazz eða blues er líka eðal.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Alltaf gaman að sjá Prince eða Kiss aftur.  Rolling Stones, Dave Gilmore eða U2. Skemmtilegast væri að taka með Tomma Guðmunds, vin minn og meistarakokk.

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? Snillingar eins og Jeff Lynne úr ELO og Prince koma upp í hugann ásamt Bono, David Bowie, Paul McCartney, Mick Jagger.  Nú eða Bubbi.  Búið að vera mikið fjör hjá þeim í rokkinu með fagrar konur alveg hægri vinstri. 

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Purple Rain með Prince and The Revolution, kemur sterklega til greina.

Vinsælustu lögin á Playlistanum:
Monster Forest  / Berndsen
Ordinary Love  /  U2
Ég veit ég vona   /  Ojba rasta
Come a Little Closer  /  Cage the Elephant
Happy  /  Pharrell Williams
Royals  /  Lorde

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir