„Pabba að kenna hversu gamaldags minn tónlistarsmekkur er“ / RANNVEIG STEFÁNS

Rannveig syngur við brautskráningu FNV vorið 2021. MYND: ÓAB
Rannveig syngur við brautskráningu FNV vorið 2021. MYND: ÓAB

Það virðast nánast allir í dag geta stigið á stokk og sungið, dansað og leikið eins og ekkert sé sjálfsagðara. Árshátíðir grunnskóla og skemmtanir framhaldsskóla snúast mikið um að setja upp ákaflega metnaðarfullar sýningar og oftar en ekki komast færri á svið en vilja – eitthvað annað en á síðustu öld þegar það þurfti nánast að draga flest ungmenni upp á svið, skjálfandi af sviðsskrekk. Að þessu sinni er það hún Rannveig Sigrún Stefánsdóttir sem svarar Tón-lystinni og hún er ein af þeim sem getur þetta allt og þrátt fyrir ungan aldur má segja að hún sé orðin reynslubolti.

Rannveig Sigrún er fædd 2002 og uppalin á Sauðárkróki, dóttir Króksarans Stefáns Ómars Stefánssonar Pálssonar og Ingu Láru Sigurðardóttur kennara frá Skagaströnd og er skírð í höfuðið á ömmum sínum. Hún vakti snemma athygli fyrir sönghæfileikana en á einnig töluvert safn af hljóðfærum; trompet, píanó, gítar, ukulele, munnhörpu, flautu og hristu. „Get spilað á þau flest. Sum vel, önnur arfailla,“ segir hún.

„Það hefur verið lítið (lesist ekkert) um spilamennsku á almannafæri en ég hef sungið með allskonar góðu fólki undanfarin ár,“ segir Rannveig aðspurð um helstu afrekin á tónlistarsviðinu. „Það er erfitt að velja hvað stendur upp úr en ef ég á að nefna eitthvað þá fannst mér rosalega gaman að taka þátt í jólatónleikunum Jólin heima sem streymt var úr Bifröst í miðjum faraldri,“ segir hún. Þá má nefna að Rannveig hefur farið með stór hlutverk í uppsetningum NFNV á söngleikjunum Mamma Mia, Grease og Footloose svo eitthvað sé nefnt og var nú síðast í vor í stóru hlutverki í frumsýningarstykki Leikfélags Sauðárkróks, Á frívaktinni.

Hvaða lag varstu að hlusta á? Ég er á svolitlu Bee Gees skeiði akkúrat núna og síðast hlustaði ég á hina stórbrotnu diskóballöðu ,,If I can´t have you“ og söng með af öllum kröftum.

Uppáhalds tónlistartímabil? Þetta er mjög erfið spurning þar sem ég er ,,út um allt“ í þessu, tónlistarsmekkurinn nær yfir marga áratugi... mest þó frá 1950-2000. Ef ég þyrfti að velja myndi ég þó segja að 70´s tónlist sé í mestu uppáhaldi þessa dagana.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Það er 70´s diskó og Eyjalögin... það þarf auðvitað að undirbúa sig fyrir Þjóðhátíð!

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Pabbi var DJ á heimilinu og því hægt að kenna honum um hversu gamaldags minn tónlistarsmekkur er. Hann segist hafa spilað ,,góða tónlist“ sem í raun var það allt frá AC/DC til Simon og Garfunkel. Allt nema rapp, það var ekki skilgreint sem góð tónlist.

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Fyrsti diskurinn sem ég eignaðist var ,,21“ með Adele, þá var ég 9 ára og í framhaldinu tók við mikið Adele skeið. Diskurinn var spilaður þangað til að hann var farinn að hiksta svo mikið að hann var eins og rapp. Þá var honum hent.

Hvaða græjur varstu þá með? Ég var með agalega fínan, skærbleikan geislaspilara sem ég hafði fengið í jólagjöf. Hann var í notkun í mörg ár enda eðal græja.

Hvert var fyrsta lagið sem þú manst eftir að hafa fílað í botn? Það var lagið Down under með hljómsveitinni Men at work. Það var skömmu fyrir Adele skeiðið mikla.

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Það er ljótt að segja það en lagið Esjan með Bríeti fer alveg með mig. Frábær tónlistarmaður og í rauninni gott lag en svakalega ofspilað. Ég bara fékk nóg.

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Ég myndi dúndra íslenskum stuðlögum í græjurnar og krefjast þess að allir myndu syngja með. Sódóma með Sálinni væri t.d. góð byrjun en það koma mörg lög til greina. Annars finnst mér lykilatriði að hafa einn til tvo gítara í góðu partíi.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Ég myndi helst vilja vakna við rólega tóna frá Simon og Garfunkel, t.d. April Come She Will“. Svo gætu þeir tekið ,,Cecilia“ til þess að koma manni fram úr.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Ég held að ég yrði að skella mér á tónleika með AC/DC í Sydney í Ástralíu og taka pabba með. Það yrði sturlað!

Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkominn með bílpróf? Ef ég fékk að ráða þá var það Queen allan daginn! Og eins hátt stillt og bíllinn leyfði.

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? Ég held að Adele hafi haft mest áhrif á mig sem söngkonu, fyrst og fremst vegna þess að ég fékk svo mikið æði fyrir henni þegar minn tónlistarsmekkur var í mestri mótun. Nú hlusta ég lítið á tónlistina hennar en ber mikla virðingu fyrir Adele sem tónlistarmanni.

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út (eða sú sem skiptir þig mestu máli)? Í augnablikinu finnst mér það vera plata með Bee Gees, How can you mend a broken heart. Svarið gæti orðið annað eftir viku.

Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum? (lag/flytjandi)
If I Can´t Have You / Bee Gees
I Heard It Through the Grapevine / Marvin Gaye
The Boxer / Simon og Garfunkel
Man Or Muppet / Jason Segal og Walter
A Whiter Shade Of Pale / Procol Harum
These Boots Are Made For Walking / Nancy Sinatra

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir