Skipulagslýsing fyrir nýjan selaskoðunarstað á Vatnsnesi
Sveitarstjórn Húnaþings vestra hefur samþykkt að leita umsagnar á skipulagslýsingu fyrir deiliskipulag í landi Flatnefsstaða í Húnaþingi vestra skv. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Markmið með fyrirhuguðu deiliskipulagi er uppbygging á nýjum sela- og náttúruskoðunarstað á Vatnsnesi til að dreifa álagi ferðaþjónustu á náttúruna.
Deiliskipulagið er unnið fyrir Selasetur Íslands á Hvammstanga, í samstarfi við Húnaþing vesta og landeigendur Flatnefsstaða. Selasetrið sótti um styrk í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða fyrir árið 2018 vegna Flatnefsstaða og fékk styrk vegna vinnu við deiliskipulag og hönnun á aðkomuvegi, bílastæðum, göngustígum, pöllum o.s.frv.
Svæðið sem um ræðir er um 90 ha að flatarmáli og nær yfir hluta jarðarinnar Flatnefsstaða sem er á vestanverðu Vatnsnesi. Í auglýsingu á vef Húnaþings vestra segir að skipulagssvæðið afmarkist nokkuð vestan við vegslóða sem liggur í gegnum land Flatnefsstaða af Vatnsnesvegi og liggur niður að sjó. Jörðin Flatnefsstaðir, og þar með skipulagssvæðið, liggur að landamerkjum jarðanna Saurbæjar í austri og Tjarnar í vestri. Einkennist svæðið neðan Vatnsnesvegar af mólendi og klapparholtum en við ströndina eru brattir klettar í sjó fram ásamt nokkrum smávíkum.
Í skipulagslýsingu segir m.a. „Svæðið er ekki viðkomustaður ferðamanna en svæðið þykir tilvalið til selaskoðunar og því er verið að skipuleggja svæðið sem selaskoðunarstað. Vegna þess þarf að útbúa aðstöðu ferðamanna sem fara að og um svæðið og þörf er á að byggja þar upp aðstöðu og bæta aðgengi. Vegna þess er þörf á að skipuleggja svæðið og skilgreina betur aðkomusvæði, bílastæði, gönguleiðir, áningar- og útsýnisstaði ásamt því að staðsetja salernisbyggingu og að setja önnur ákvæði sem ástæða er til að skilgreina í deiliskipulagi.“
Skipulagslýsingin sem er sett fram í greinargerð verður til sýnis í Ráðhúsi Húnaþings vestra, Hvammstangabraut 5, 530 Hvammstanga og á heimasíðu sveitarfélagsins www. hunathing.is frá 19. júní – 10. júlí 2018
Íbúum og hagsmunaaðilum gefst kostur á að leggja fram sjónarmið og ábendingar við skipulagslýsinguna. Skal þeim skilað skriflega á skrifstofu Húnaþings vestra eða á netfangið skrifstofa@hunathing.is fyrir 10. júlí 2018.
Skipulagslýsinguna má sjá HÉR