Slapp vel frá handavinnu í barnaskóla

Ásta Ólöf Jónsdóttir sagði frá handavinnunni sinni í þættinum Hvað ertu með á pjónunum? í 34. tbl. Feykis 2017. Ásta er uppalin í Óslandshlíðinni í Skagafirði og hún segir að handavinna hafi sko ekki verið í miklu uppáhald þegar hún var barn. „Ég var svo „heppin“ að handavinnukennarar voru ekki á hverju strái í sveitinni í gamla daga svo ég slapp vel frá handavinnu í barnaskóla. Ég lærði nú samt að prjóna og hekla. Mamma hefur trúlega kennt mér það. Það var ekki fyrr en ég var komin í menntaskóla sem ég fór að hafa gaman af handavinnu og fór þá meira að segja á saumanámskeið og saumaði dragtina sem ég klæddist á útskriftardaginn,“ segir Ásta þegar hún er spurð að því hvað hún hafi stundað hannyrðir lengi.
Hvaða handavinnu þykir þér skemmtilegast að vinna?
Ég hef svo sem reynt mig við ýmiss konar hannyrðir. Prjón, hekl og saumaskap ber þar hæst. Þær eru orðnar nokkuð margar peysurnar sem ég hef prjónað
um ævina. Ég prjónaði og saumaði á eldri syni mína þegar þeir voru yngri. Ætlaði svo aldeilis að njóta þess að
prjóna á örverpið sem er mun yngra. En hann var nú ekki mikið fyrir að ganga í handprjónuðum ullarpeysum svo það datt nú fljótlega um sjálft sig. Sokka og vettlinga sér móðir mín um svo ég þarf ekki að prjóna slíkt. Ég tók hins vegar heldur betur upp þráðinn þegar ég varð amma og hef haft það fyrir sið að gefa nöfnu minni prjónaða flík í afmælis- og jólagjafir. Það varð hins vegar viss kúvending hjá mér fyrir fjórum árum þegar ég komst í kynni við þjóðbúningasauminn. Ég hafði komið mér upp upphlut árið 2011 og taldi mér þá trú um að þetta gæti ég aldrei saumað sjálf svo ég lét gera það fyrir mig. Tveimur árum síðar fékk ég þá brjáluðu hugmynd að fara á námskeið í baldýringu sem er útsaumsaðferð sem notuð er m.a. til að sauma út í upphlutsborða. Keyrði suður í Hafnarfjörð einu sinni í viku í átta vikur og saumaði í upphlutsborða fyrir upphlut á unga stúlku. Vorið 2015 var svo námskeið hér norðanlands í upphlutssaumi og saumaði ég þá upphlut á sonardótturina og notaði borðana sem ég hafði baldýrað í. Árið eftir fór ég aftur á námskeið og saumaði þá 19. aldar upphlut á tengdadóttur mína. Bætti svo um betur á þessu ári og saumaði barnabúning fyrir litla stúlku hér í bænum. Mér finnst óskaplega gaman að sjá þessa fallegu búninga verða til og get vel hugsað mér að halda áfram við slíkan saumaskap. Ég er líka búin að fara og læra að
sauma skinnskó og á eina sauðskinnsskó sem ég nota stundum við upphlutinn minn. Í fyrra prófaði ég að fara á námskeið í víravirkisgerð og er vonandi að fara á það þriðja í haust. Er búin að smíða bæði nælu og hálsmen.
Hverju ertu að vinna að um þessar mundir?
Mér finnst ágætt að hafa fleira en eitt verkefni í gangi í einu. Ég var t.d. að ljúka við að hekla dúlluteppi með 200 dúllum sem ég byrjaði á fyrir þremur árum.
Þá fór ég á bændadaga í Skagfirðingabúð og keyti eina dokku af hverjum lit sem til var af kambgarni og byrjaði að hekla dúllur. Þetta hef ég haft sem hliðarverkefni síðustu þrjú ár meðan ég saumaði þjóðbúninga og prjónaði eina og eina peysu. Var að klára teppið núna í síðustu viku. Ég er núna að prjóna afmælisgjöf handa nöfnu minni en það verður ekki upplýst hér hvað það er. Og svo er næst á dagskrá að prjóna eitthvað á væntanlegt barnabarn. Maður er aldrei verkefnalaus þegar kemur að hannyrðum.
Hvaða handverk sem þú hefur unnið ert þú ánægðust með?
Ég held að það sem mér þykir vænst um af því sem ég hef gert um ævina sé þjóðbúningur nöfnu minnar. Ég hef sjaldan verið eins stolt og þegar ég lauk við hann.
Þegar streitan er að ná yfirhöndinni í annasömu lífi nútímakonunnar (eða karlsins) er afskaplega gott að setjast niður með handavinnu og rólega tónlist. Handavinna er afskaplega róandi og mér finnst fátt betra en að sitja í hjólhýsinu mínu einhvers staðar úti í buskanum með hekl eða prjón.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.