Stórtjón á gervigrasvellinum á Króknum

Eins og sjá má er völlurinn bylgjóttur og því hreinlega hættulegur. MYND AÐSEND
Eins og sjá má er völlurinn bylgjóttur og því hreinlega hættulegur. MYND AÐSEND

Í leysingunum síðastliðinn laugardag fór gervigrasvöllurinn glæsilegi á íþróttasvæðinu á Sauðárkróki undir vatn og var völlurinn ekki leikhæfur á sunnudegi. Spilað var á vellinum í gær en ljóst var að völlurinn var ekki í góðu ástandi. „Í morgun mætti galvaskur hópur leikmanna Tindastóls og starfsmenn sveitarfélagsins og flettu gervigrasinu af á parti og kom í ljós að gúmmipúðinn undir er ónýtur,“ tjáði Adam Smári Hermannsson, formaður knattspyrnudeildar, Feyki.

„Það þarf að taka upp gervigrasið á þokkalegum kafla og laga undirlagið ásamt því að leggja nýjan undirpúða,“ segir Adam Smári sem giskar á að lagfæra þurfi allt að þriðjungi vallarins.

Hvað er til ráða, þarf að spila á grasvellinum í sumar? „Kemur ekki til greina að nota grasvöllinn, það er langt í að hann nái sér [eftir veturinn]. Þetta snýst bara um að hafa hraðar hendur og fá rétta aðila á svæðið sem geta lagað þetta,“ segir Adam Smári og bætir við að það þurfi einnig að gera ráðstafanir við Grænuklaufina. „Það þarf að koma upp einhverskonar vegg sem hindrar að vatnið fari alltaf niður á völlinn,“ segir hann og bætir við að sé að gerast reglulega að partur af vellinum sé á floti þegar það hlýnar aðeins yfir vetrartímann en þá sé bara hægt að æfa á hálfum velli.

Slysahætta eins og staðan er í dag

Völlurinn drenar sig sjálfur en það að vera á floti og rúmlega það er ekki til eftirbreytni. „Gervigrasvellir eru ekki gerðir fyrir það að vera á floti,“ segir formaðurinn og bætir við: „Það sem átti sér stað hér á laugardaginn er náttúrulega einsdæmi en límið í gúmmípúðanum gefur sig á endanum þegar það liggur á kafi oftar en einu sinni í einhvern tíma. Hér var verið að vinna í sjö tíma í gær við að reyna að gera völlinn leikhæfan – ef leikhæfan má kalla. Völlurinn er slysahætta eins og hann er í dag,“ segir Adam Smári að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir