Sýnataka Heilbrigðiseftirlitsins leiddi ekkert óeðlilegt í ljós

Yngra stig leikskólans Ársala á Sauðárkróki við Víðigrund. Mynd/BÞ
Yngra stig leikskólans Ársala á Sauðárkróki við Víðigrund. Mynd/BÞ

Raki í húsnæði yngra stigs leikskólans Ársala á Sauðárkróki hefur valdið áhyggjum nokkurra foreldra sem óttast að þar kunni að vera myglusveppur. Í Feyki vikunnar er fjallað um fundi sem boðað var til með foreldrum vegna þessa, þar sem foreldrar voru upplýstir um stöðu mála, fyrirhugaðar aðgerðir leikskólans og sveitarfélagsins sem og niðurstöður úr sýnatöku Heilbrigðiseftirlitsins.

Fyrri fundurinn var haldinn þann 25. febrúar og hefur verið greint frá honum áður hér á feyki.is. Seinni fundurinn fór fram sl. þriðjudag og þar gerði Sigurjón Þórðarson heilbrigðisfulltrúi grein fyrir niðurstöðum úr sýnatöku sem hann gerði með svokölluðum agarskálum með næringaræti sem hann hafði komið fyrir á hverri deild á leikskólanum. Þar sem myglusveppur er til staðar leyna sveppagróin sér ekki auðveldlega í andrúmsloftinu og sagði Sigurjón að ef hún væri til staðar í rýminu myndi hún detta í skálina. Niðurstöður sýnatökunnar bentu til að það er ekkert óeðlilegt við andrúmsloft leikskólans. 

Sumir foreldrar voru ekki fyllilega sáttir við þessa niðurstöðu og vildu fá nánar úr því skorið hvort myglusveppur leynist undir gólfefnum deildarinnar Læk og vildu láta kalla til sérfræðing. Nafn Guðríðar Gyðu Eyjólfsdóttur sveppafræðings var nefnt í því samhengi. Á fundinum fullvissaði Sólveig Arna Ingólfsdóttur aðstoðarleikskólastjóri foreldra að öll nauðsynleg skref yrðu tekin til þess að tryggja öryggi og heilsu barnanna. Hún sagði að það sama væri upp á teningnum hjá sveitarfélaginu, og að hún hefði orð forsvarsmanna sveitarfélagsins fyrir því, að engu yrði til sparað í þeim efnum. 

Eftir að hafa skoðað mynd af meintum myglusvepp, sem foreldri barns úr leikskólanum sendi henni, ráðleggur Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir sveppafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands að tekið verði sýni úr dúknum. Þegar Feykir spurði hana hvort sýnatakan sem framkvæmd var dugi ekki svaraði Guðríður að hún styðji vissulega þá niðurstöðu að engir myglusveppir séu til staðar en að það sé ekki óyggjandi. Viðtal við Guðríði og umfjöllunina í heild sinni má lesa í Feyki vikunnar

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir