Talnagreining fyrir árið 2018
Benedikt S. Lafleur hefur sent frá sér talnagreiningu fyrir árið 2018. Hann segir að nýtt ár sé ár frumkvöðla, þeirra sem ryðja brautina. Þversumman 11 sé tala mikillar andlegrar hreinsunar, en einnig í efnislegum skilningi, tala umbrota og jafnvel náttúruhamfara. Spá Benedikts fer hér á eftir:
Árið 2018
„Með nýju ári má segja að vægi orkunnar aukist úr 17 í 18. Hinn metnaðarfulli og drífandi ás, sem er um leið burðarliðurinn í tölunum tveimur, hefur nú gengið til liðs við áttuna, tölu peninga og viðskipta, stjórnmála og valda, diplómatískra samskipta og sveigjanleika. Áttan sem var jú þversumma tölunnar 17 er nú orðin virkari í þversummu alls ársins en áður og meira áberandi. Saman mynda þessar tvær tölur, 1 og 8, hina alþjóðlegu og óeigingjörnu tölu heildar og þjónustu, töluna 9. Þversumma alls ársins 2017 var 10 (2 + 0 + 1 + 7 = 10) eða 1 (1 + 0 = 1) en er nú orðin 11 eða 2 (2 + 0 + 1 + 8 = 11 / 2).
Meistaratölur leggjum við yfirleitt ekki saman, ekki hér frekar en áður. Þversumman tveir felur hins vegar í sér kærleiksmátt og metnað í þá veru til að bjarga heildinni og færa fórnir fyrir hana. 11 er engu að síður óvenju hörð og miskunnarlaus tala, hvort heldur hún hneigist til góðs eða ills. Hún er afspyrnu metnaðarfull og svífst einskis í viðleitni sinni. 11 er tala frumkvöðulsins, tala frumkvæðis og frumlegrar nýsköpunar. Hún nýtur ekki alltaf skilnings og þarf á hjálp að halda til að ná sínu fram. Þetta er tala mikillar andlegrar hreinsunar, en einnig í efnislegum skilningi, tala umbrota og jafnvel náttúruhamfara. Að baki þessarar drífandi og metnaðarfullu brautryðjendatölu búa hins vegar mjög öflugar og drífandi tölur sem kunna að koma henni töluvert að gagni, ekki síst í alþjóðlegum skilningi. Í þessu sambandi er hægt að horfa til allra okkar ástsælu íþróttamanna með töluverðri bjartsýni.
Sem fyrr höfum við töluna 2 sem fylgir öld vatnsberans, tölu kærleika og greiðvikni, tölu móðurlegrar umhyggju og umburðarlyndis. Talan 1 eykur enn hinn drífandi sóknarkraft sem í ellefunni felst en hefur nú öðlast bandamann í fjármálatölunni 8.
Hafa ber þó í huga að áttunni fylgir töluverð áhættusækni, sem er vissulega þörf ef ráðist er í nýja sókn í brautryðjendamálum en sem getur einnig haft í för með sér tjón eða tap ef tekin er óþörf áhætta sem skilar sér ekki í gróða eða vinsældum. Kannski átti þetta þó fremur við um töluna 2017, þar sem þversumman var einn, tala sem við þekkjum alltof vel frá hrunárinu 2008 og takmarkaði sókn áttunnar og dró úr henni kraft og áræðni með afdrifaríkum og varanlegum hætti í samdrætti í stað uppbyggingar. Nú hefur sóknarþunginn náð meiri styrk en áður með meistaratölunni 11 og með hvarkvæmari skírskotun (með þversummunni 9) sem ætti að hjálpa tölunni að ná þeim árangri sem henni er ætlað."
Þess má geta að hægt er að panta einstaklings- eða fyrirtækjagreiningu hjá Benedikt með tilliti til nýja ársins og þess gamla með tölvupósti á lafleur@simnet.is.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.