Tekin verði upp utanríkisstefna ESB| Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
Meðal þess sem fram kemur í sameiginlegri yfirlýsingu, sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra og formaður Viðreisnar, undirritaði í gær ásamt utanríkisráðherrum hinna aðildarríkja EFTA sem aðild eiga að EES-samningnum, Noregs og Liechtenstein, auk Evrópusambandsins, er að ríkin þrjú muni aðlaga sig að utanríkisstefnu sambandsins.
Tilkynnt var um undirritunina á vefsíðu utanríkisráðuneytisins í gær en þar kemur hins vegar einungis fram í þessum efnum að yfirlýsingin feli í sér „að ríkin samræmi afstöðu til alþjóðamála“ sem er ekki mjög lýsandi fyrir það sem í raun segir í henni. Nema að átt sé við að þau samræmi afstöðu sína í þeim efnum við stefnu Evrópusambandsins en þá vantar það.
Fram kemur þannig í yfirlýsingunni að undirritaðir ráðherrar séu staðráðnir í því að uppfæra pólitískt samtal um utanríkismál á vettvangi EES-samningsins með tilteknum hætti og síðan talin upp ýmis atriði í þeim efnum. Þar á meðal þetta: „Aðlögun að utanríkisstefnu ESB […] aðlögun EFTA/EES-ríkjanna að ákvörðunum, yfirlýsingum og refsiaðgerðum ESB.“
Ljóst er að annað í yfirlýsingunni tekur mið af þessu meginatriði hennar. Til að mynda þar sem kveðið er á um aukið samstarf á milli sendinefnda Evrópusambandsins og fulltrúa utanríkisþjónustu Íslands, Noregs og Liechtensteins gagnvart öðrum ríkjum sem og innan alþjóðastofnana og á alþjóðaráðstefnum. Sem sagt á grundvelli utanríkisstefnu sambandsins.
Kveðið er á um það að fulltrúar Íslands, Noregs og Liechtenstein geti mögulega setið tiltekna fundi um utanríkismál á vegum stofnana Evrópusambandsins en hins vegar er ljóst að þeir munu enga aðkomu hafa að ákvarðanatökum í þeim efnum. Með öðrum orðum er um að ræða aðlögun að utanríkisstefnu sambandsins án þess að hafa neitt um hana að segja.
Talsmenn inngöngu í Evrópusambandið, ekki sízt Þorgerður Katrín, hafa lengi gagnrýnt aðild Íslands að EES-samningnum á þeim forsendum að með henni þyrftum við Íslendingar að taka upp regluverk sambandsins um innri markað þess án þess að hafa mikið um það að segja. Nú á að aðlaga Ísland að utanríkisstefnu Evrópusambandsins á sömu forsendum.
Vísað er í yfirlýsingunni til fyrri yfirlýsingar um pólitískt samtal um utanríkismál á milli Evrópusambandsins og EFTA/EES-ríkjanna frá árinu 1994 og að um sé að ræða uppfærslu á henni. Þar er hins vegar hvergi rætt um aðlögun að utanríkisstefnu sambandsins. Þvert á móti er þar einungis talað um nánari tengsl þar sem hagsmunir þessara aðila fari saman.
Með öðrum orðum felur yfirlýsingin í sér algera grundvallarbreytingu í þessum efnum og í raun eðlisbreytingu. Gert er enn fremur ráð fyrir því að EFTA/EES-ríkin aðlagi sig að utanríkisstefnu Evrópusambandsins án þess að fyrir liggi hver stefna þess kunni að verða í framtíðinni. Engum fyrirvara er þannig fyrir að fara um að hún samrýmist hagsmunum þeirra.
Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að Þorgerður Katrín hafi ekki kynnt málið fyrir utanríkismálanefnd Alþingis áður en hún undirritaði yfirlýsinguna fyrir hönd Íslands eins og ber að gera lögum samkvæmt þegar um meiriháttar utanríkismál er að ræða eins og ljóslega á við í þessu tilfelli þar sem í reynd er stefnt að upptöku utanríkisstefnu Evrópusambandsins.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur, alþjóðastjórnmálafræðingur og stúdent frá FNV