Þingsályktunartillaga um heilsársveg yfir Kjöl

Þrír þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þeir Njáll Trausti Friðbertsson, Vilhjálmur Árnason og Haraldur Benediktsson hafa lagt fram til Alþingis þingsályktunartillögu þess efnis að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra verði falið að hefja undirbúning að endurnýjun vegarins yfir Kjöl sem heilsársvegar með einkaframkvæmd. Mælst er til að ráðherra láti gera forkönnun á umhverfisáhrifum og samfélagslegum og efnahagslegum áhrifum framkvæmdarinnar, m.a. á ferðaþjónustu, byggðaþróun og náttúruvernd. Stefnt skuli að því að undirbúningi framkvæmda ljúki fyrir 1. febrúar 2019 og framkvæmdir hefjist í beinu framhaldi.
Í greinargerð með tillögunni segir meðal annars að mörg rök hnígi að því að endurbæta vegarkaflann, s.s. öryggissjónarmið, byggðasjónarmið og sjónarmið um umhverfisvernd. Bent er á að Kjalvegur hafi allt frá landnámsöld verið mikilvæg samgönguæð milli norður- og suðurhluta landsins og mikilvægi vegarins sé enn mikið, þrátt fyrir mikla uppbyggingu á hringveginum síðustu áratugi. Bent er á að undanfarin ár hafi orðið gríðarlegur vöxtur í ferðaþjónustu, bæði sumar og vetur, og að heilsársvegur yfir Kjöl muni stytta til muna leiðina landshorna á milli og auðvelda ferðir til Norðurlands og yfir hálendið og opna möguleika á þróun nýrra ferðamannaleiða. Nýjar og góðar samgönguleiðir mundu einnig styrkja og tengja saman landbúnaðarsvæði á Suður- og Norðurlandi. Norðvesturland hafi farið nokkuð halloka í atvinnu- og byggðamálum síðustu áratugi og íbúum og störfum fækkað jafnt og þétt. Heilsársvegur yfir Kjöl mundi styrkja atvinnulíf í landshlutanum auk þess sem ferðaþjónusta geti skipt grundvallarmáli þegar að því komi að viðhalda lágmarksþjónustu í litlum byggðarlögum þar sem íbúafjöldi stendur ekki undir henni einn og sér.
Hér er hægt að kynna sér tillöguna nánar ásamt greinargerð.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.