Þróunar- og átaksverkefni í búskaparskógrækt í Húnaþingi vestra

Unnið við gróðursetningu í hagaskóg á Fjarðarhorni í Hrútafirði . Mynd: Skogur.is
Unnið við gróðursetningu í hagaskóg á Fjarðarhorni í Hrútafirði . Mynd: Skogur.is

Á siðasta ári tilkynnti Sigrún Magnúsdóttir, þáverandi umhverfisráðherra, um eins árs þróunar- og átaksverkefni um búskaparskógrækt í Húnaþingi vestra. Markmið þess var að bæta búsetuskilyrði og laga skógræktarverkefni að þörfum bænda. Sjö milljónir króna voru veittar til verkefnisins og var Skógræktinni falið að stýra því í samvinnu við Húnvetninga. 

Sagt er frá verkefninu á vef Skógræktarinnar. Þar segir að ráð­herra hafi frá upphafi lagt áherslu á að hugað yrði að ræktun skjólbeltakerfa, skjóllunda fyrir búfé, haga­skóga, landgræðsluskóga, skjólskóga, akur­skóga og fjölnytjaskóga þar sem timbur­vinnsla yrði til viðbótar við önnur markmið. Skyldu bændur fá ráðgjöf um hvernig nýta mætti framantalda kosti til að bæta skilyrði til búsetu á jörðum sínum og kanna skyldi hvers konar breytingar væri æskilegt að gera á núverandi stuðningi við skógrækt á lögbýlum svo að skógræktar­verkefni yrðu áhugaverðari fyrir bændur.

Var Sæmundi Kr. Þorvaldssyni, skógfræðingi, falið að stýra verkefninu fyrir hönd Skógræktarinnar ásamt Johan Holst, skógræktarráðgjafa, sem sér um faglegu hliðina. Unnið er í samráði við Búnaðarsamband Húnaþings og Stranda og Sveitarfélagið Húnaþing vestra.

Fjórtán umsóknir bárust um þátttöku og stefnan er að ráðast í verkefni á alls sjö jörðum. Á Lækjamóti í Víðidal og á Mýrum 3 í Hrútafirði verð­ur ræktað skjólbeltakerfi en snjófangari á Gauksmýri í Línakradal. Á Brekkulæk í Miðfirði er efnt til nokkurs konar aukaverkefnis í tilraunaskyni þar sem rýrt holt með eldri hagaskógi hjá skógar- og sauðfjár­bónda verður varið fyrir hrossabeit en ekki sauðfjárbeit. 

Á tveimur stöðum verða gerðar tilraunir með hagaskógrækt, annars vegar á Fjarðar­horni í Hrútafirði á rúmlega 26 hekturum og hins vegar á 5,4 hekturum á Kolugili í Víðidal. Með hagaskógi er átt við gisinn skóg með góð­um bithögum. Í þessum tilraunum verður þess  freistað að koma upp lerkiskógi án friðunar fyrstu árin og munu miklir fjármunir sparast sem annars færu í girðingar, sé þetta hægt.

Þá verður gerð áhugaverð tilraun á Bakka í Víðidal þar sem gróðursettir verða nokkrir sérvaldir asparklónar í skjólbelti við tún í um 200 metra hæð yfir sjó.

Framkvæmdir eru hafnar við jarðvinnslu vegna skjólbelta á Gauksmýri og gróður­setningu í snjófangara. Gróður­setning í hagaskóginn í Fjarðarhorni er einnig vel á veg komin. Hafa bændur um allt land sýnt þessum verkefnum mikinn áhuga.

Nánar má fræðast um verkefnið á vef Skógræktarinnar.

Fleiri fréttir