Þungar áhyggjur sveitarstjórnarmanna

Á fundi Byggðaráðs Skagafjarðar í morgun var lagður fram tölvupóstur frá iðnaðarráðuneytinu varðandi fyrirhugaðar breytingar á Byggðastofnun. Eins og fram hefur komið hefur verið tilkynnt um það frá iðnaðarráðuneyti að leggja skuli niður þróunarsvið Byggðastofnunar frá og með 1. júlí á næsta ári.

Byggðarráð lýsir þungum áhyggjum af fyrirhuguðum breytingum og felur sveitarstjóra að óska eftir fundi með iðnaðarráðherra í næstu viku.

Vinstri grænir eru mjög ósáttir við  aðgerðir iðnaðarráðuneytisins og Gísli Árnason óskaði eftir því á fundinum að eftirfarandi yrði bókað: "Fyrirliggjandi hugmyndir starfsmanna iðnaðarráðuneytisins um að skerða starfsemi Byggðastofnunar og leggja niður þróunarsvið hennar er köld vatnsgusa framan í íbúa landsbyggðarinnar sem sannarlega þurfa nú á öðru að halda frá ráðuneyti byggðamála.
 
Byggðastofnun hefur gegnt lykilhlutverki í atvinnuþróunarstarfi á landsbyggðinni og leitt alþjóðlegt samstarf í byggðamálum fyrir Íslands hönd. Þá hefur stofnunin haft mikilsverðu hlutverki að gegna í stuðningi við atvinnulíf á landsbyggðinni með lánastarfsemi sinni.

Starfsemi stofnunarinnar hefur verið farsæl á undanförnum misserum og starfsfólk skilað góðu starfi. Aldrei hefur verið mikilvægara að efla starfsemi Byggðastofnunar og færa henni aukið hlutverk en einmitt núna. Hugmyndir starfsmanna iðnaðarráðuneytisins ganga út á að færa umsýslu byggðamála aftur til Reykjavíkur inn í ráðuneytið og til Nýsköpunarmiðstöðvar, sem þar hefur höfuðstöðvar sínar.

Ef slíkt næði fram að ganga felur það í sér algera stefnubreytingu af hálfu stjórnvalda sem áður höfðu markað sér þá stefnu að utanumhald á byggðaþróunarstarfi væri á landsbyggðinni og miðstöð þess starfs á Sauðárkróki. Fagnað er boði iðnaðarráðuneytisins um viðræður við sveitarfélagið um flutning starfa í sveitarfélagið, sem tengjast ferðamálum og Hagstofu Íslands.

Áður hefur verið tekin ákvörðun um að Nýsköpunarmiðstöð hafi starfsmenn á Sauðárkróki. Ekki er þó með nokkrum hætti hægt að tengja slíkar viðræður framkomnum hugmyndum um skerðingu á starfsemi Byggðastofnunar. Hér er um allsendis óskyld mál að ræða og öllum má ljóst vera að ósæmilegt væri að stilla hlutunum upp með öðrum hætti."

Fleiri fréttir