Til athugunar að loka bensínstöð N1 á Hvammstanga

Frá Hvammstanga. Mynd: nat.is
Frá Hvammstanga. Mynd: nat.is

Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra hefur nú til athugunar að loka bensínstöð N1 á Hvammstanga frá og með 1. febrúar næstkomandi þar sem bensínstöðin starfar ekki í samræmi við reglugerð. Ástæða þessara aðgerða er skortur á mengunarvarnarbúnaði ásamt ófullnægjandi afgreiðsluplani. Frá þessu er greint í frétt á vísi.is á laugardag.

Ennfremur segir í fréttinni að í bréfi heilbrigðiseftirlitsins til forsvarsmanna N1 segi að starfsleyfi hafi ekki legið fyrir þegar rekstur stöðvarinnar hófst og hafi því eftirlitið fyrst stöðvað starfsemina í apríl 2015. N1 sótti um starfsleyfi í framhaldi af því og gaf heilbrigðiseftirliti loforð um að gengið yrði frá málum í samræmi við þágildandi reglugerð. „N1 hefur ekki enn staðið við að framkvæma fullnægjandi úrbætur, þannig að hvorki er fullnægjandi afgreiðsluplan né olíuskilja tengd stöðinni,“ segir í bréfinu. Vantar því tilskilinn mengunarvarnabúnað á stöðina.

N1 sendi eftirlitinu bréf dagsett þann 2. október þar sem óskað var eftir leyfi til að halda rekstrinum áfram til  júníloka á næsta ári án þess að uppfylla skilyrði um mengunarvarnir. Þeirri beiðni var hafnað. Verði ekkert að gert mun því bensínstöðinni verða lokað í febrúar.

Nánar má kynna sér málið hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir