Töluverð hætta á snjóflóðum á Tröllaskaga

Hér sést hvernig snjóflóðið hefur runnið yfir veginn, ána og brúna skammt frá Kambi í Deildardal. MYND: BJÖGUNARSVEITIN GRETTIR
Hér sést hvernig snjóflóðið hefur runnið yfir veginn, ána og brúna skammt frá Kambi í Deildardal. MYND: BJÖGUNARSVEITIN GRETTIR

Í tilkynningu á vef Björgunarsveitarinnar Grettis á Hofsósi er sagt að það sé varasamt að fara um Tröllaskagann núna. Ástæðan er snjóflóðahætta en um hádegisbilið í gær féll 240 metra breitt flóð í Deildardal, austan Hofsóss, skammt frá bænum Kambi. Féll það yfir veginn, ána og brúna.

Þar kemur einnig fram að snjóflóð hafi fallið í Kolbeinsdal framan við Smiðsgerði.

Samkvæmt snjóflóðaspá Veðurstofunnar þá er talin töluverð hætta á snjóflóðum á utanverðum Tröllaskaga en varasamar aðstæður eru til fjalla. Spáin gildir fram að helgi. Deildardalur og Kolbeinsdalur eru reyndar ekki á utanverðum Tröllaskaga en svæðið virðist afmarkast af vestur Fljótum í vestri og innfyrir Dalvík í austri. Sjá mynd >

„Talsvert búið að snjóa inn til dala í NA-strekkingi um páskana en minna á annesjum og vindflekar í flestum viðhorfum. Vonskuveður á páskadag, hvöss NNA-átt með mikilli úrkomu um tíma og nokkur flekahlaup féllu,“ segir á síðu Veðurstofunnar. Sum þeirra snjóflóða sem fallið hafa síðustu daga hafa farið af stað af völdum vélsleða og skíðamanna. Það er því full ástæða til að fara varlega.

Þess má geta að hættustig Veðurstofunnar eru fimm; lítil hætta, nokkur hætta, töluverð hætta, mikil hætta og loks mjög mikil hætta. Á utanverðum Tröllaskaga er töluverð hætta á snjóflóðum eins og áður kom fram í fréttinni.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir