Tónleikar með Ásgeiri Trausta á Hvammstanga
Tónlistarmaðurinn Ásgeir Trausti ætlar að halda tónleika í félagsheimilinu á Hvammstanga þann 8. júlí nk. í tilefni af því að hann sendi frá sér nýja plötu nú á vordögum.
Í samtali við Fréttablaðið í gær segir Ásgeir Trausti að það hafi fyrst verið ákveðið núna nýlega að nota fríið milli túra og halda tónleika á æskuslóðunum í Miðfirðinum. Tónleikarnir verða nokkurs konar útgáfutónleikar fyrir nýjustu plötu hans, Afterglow, sem kom út í síðasta mánuði. Þegar Ásgeir gaf út plötuna Dýrð í dauðaþögn hélt hann útgáfutónleika á Hvammstanga og segir hann að þá hafi stemmingin verið mjög góð en upp úr standi þó þakklætið sem sveitungarnir sýndu þvi ekki sé algengt að svona viðburðir séu haldnir þar. Þegar hann var að alast upp hafi ekki verið algengt að alvörutónleikar hafi verið haldnir á staðnum.
Ásgeir Trausti er nú í fríi á milli túra, hann er nýkominn frá Frakklandi þar sem hann spilaði í minni bæjum á landsbyggðinni en áður hafði hann verið í stærri Evrópureisu. Næst er svo ferðinni heitið til Frakklands aftur til að hita upp fyrir London Grammar en svo taka við ferðalög um Ástralíu, Japan og Bandaríkin þannig að í nógu er að snúast hjá Ásgeiri. „Maður vill eiginlega ekki taka frí, hausinn er alltaf í þessu. Þó að maður sé ekki að vinna vinnu sem býr eitthvað til sem maður getur haldið á þá er hausinn samt alltaf á fullu. Eins og ég segi er ég til í að taka þetta ár í að túra og hlakka mikið til,“ segir Ásgeir í viðtalinu.
Tónleikarnir á Hvammstanga eru einu tónleikar Ásgeirs Trausta hér á landi á þessu ári fyrir utan Airwavestónleikana í haust. Miðasala hófst í gær á tix.is.