Um hnignun Íslands eftir siðaskipti - Áskorandinn Ásgeir Jónsson brottfluttur Skagfirðingur

ÍSLAND, grát þitt gæfuleysi,
grát það tjón og örlög hörð.

Svo hljóða upphafslínur kvæðis Páls Jónssonar um aftöku Jóns Arasonar biskups – þann 7. nóvember 1550. Kvæðið var ort í upphafi tuttugustu aldar – þegar Hólabiskup var orðinn sjálfstæðishetja og Íslendingar horfðu fram á fullveldi og síðan stofnun lýðveldis. En – ef litið er framhjá sjálfstæðispólitík – hve mikið er til í því að ástand lands og þegna hafi versnað eftir fall Jóns og síðan siðaskipti?

Sá sem hér ritar er hagfræðingur að mennt og líklega ekki með þekkingu til þess að leggja dóm á sálarlíf landsmanna og andlega velferð þjóðarinnar almennt – hvað þá breytingu í þessum efnum við siðaskipti. Hann getur hins vegar leitt getum að breytingum í efnalegri velferð þjóðarinnar. Þar er málið alveg skýrt. Konungur náði tökum á Íslandi eftir siðaskipti – bæði sem æðsti yfirmaður íslensku kirkjunnar og með beitingu vopnavalds. Því valdi var beitt til þess að sölsa undir auðlindir landsins – jafnframt því að einangra landið og stöðva efnahagslega framþróun með verslunareinokun.

Tökum aðeins stöðuna:
Kristján III kann að hafa verið sanntrúaður maður og viljað af heilum hug siðbæta Íslendinga en hann hafði einnig mjög ríka efnahagslega og pólitíska hagsmuni af því að ýta katólsku kirkjunni til hliðar hérlendis líkt og í Danmörku og Noregi. Danir höfðu aldrei haft nema veika stjórn á landinu. Landsmenn voru vopnaðir, herskáir ef svo bar undir, og höfðu löngum komist upp með að drepa danska umboðsmenn. Herleiðangrar til Íslands voru dýrir og hættulegir og danski flotinn þunnskipaður. Umboðsmenn konungs höfðu stopula vist hérlendis og þorðu sig lítið að hræra frá Bessastöðum.

Annar veikleiki Dana fólst í því að hér lágu stærri og sterkari þjóðir, Englendingar, Hollendingar og Þjóðverjar, með skip sín kringum landið. Danskir kaupmenn stóðust þeim einfaldlega ekki snúning. Loks hafði íslenska kirkjan, í bandalagi við þá norsku, lengi verið ofjarl konungsvaldsins hérlendis þar sem biskuparnir virtust ávallt hafa síðasta orðið í öllum málum, sama hvað leið konungsbréfum. Ísland var gullnáma en aðrar þjóðir en Danir grófu og græddu. Kaupmannahöfn varð að komast að Íslandsversluninni og það gat aðeins gerst ef Hamborg væri ýtt til hliðar. Gætu danskir kaupmenn ekki haft í fullu tré við þýska kaupmenn í frjálsri samkeppni varð að beita öðrum aðferðum. Fyrir Dani voru siðaskiptin tækifæri til þess að koma fram áætlunum sem þeir höfðu lengi haft á prjónunum – að nýta Ísland til þess að efla Danska ríkið og kaupskap í Kaupmannahöfn.

Þetta er aðdragandinn að því að konungur sendi herlið á Alþingi sumarið 1541 til þess að láta þingheim samþykkja siðaskipti og handtaka hinn blinda Ögmund Pálsson skálholtsbiskup. Að vísu sneru Norðlendingar við og voru ekki á Þingvöllum. Siðbreytingin náði aðeins til Skálholtsbiskupsdæmis. En það var konungi nægjanlegt í bili. Konungur var sáttur við að Jón biskup fengi að sitja í friði á Hólum – sem hinn síðasti kaþólski biskup Norðurlanda. Svo lengi sem Danir gætu komið áætlunum sínum í framkvæmd – að sölsa undir sig fiskverslunina á Reykjanesi.

Konungur hóf leikinn með gera báta Hamborgarmanna á Suðurnesjum upptæka og hefja konungsútgerð. Og síðan árið 1548 að selja landið á leigu til borgarráðs Kaupmannahafnar sem hafði jafnframt stofnað verslunarfélag. Sú ráðstöfun leiddi til átaka á milli Dana og Þjóðverja um aðgang að Íslandsversluninni – og gerði Hamborgarmenn sjálfkrafa að bandamönnum Jóns. Hólabiskup áleit að með Þjóðverja að baki sér – gæti hann alveg haft í fullu tré við Dani. Það sem hann gerði sér ekki grein fyrir var hve Hamborgarmenn voru fljótir að svíkja hann – um leið og konungur dró áætlanir sínar til baka um að taka yfir Íslandsverslunina veturinn 1550-1551.

En aftur að afleiðingum siðaskiptanna. Vorið 1551 sendi konungur nokkur herskip til Íslands með þýskum málaliðum – enda vissi hann ekki að Jón væri þá þegar fallinn. Í kjölfarið var Ísland hernumið. Konungsmenn rændur kirkjur og tóku yfir jarðeignir klaustranna og þeirra Hólafeðga. Þá voru útvegsjarðir Skálholtskirkju hirtar og brennisteinsnámurnar í Þingeyjarsýslu teknar eignarnámi. Marteini Einarssyni skálholtsbiskup ofbauð svo þessar aðfarir að hann sagði af sér sem biskup 1556. Í því framhaldi var erlendum þjóðum smám saman ýtt út úr verslun hérlendis og loks með verslunareinokuninni 1602 var lokað fyrir samskipti við aðrar þjóðir en Dani.

Frjáls verslun – frjáls samskipti við umheiminn eru lykillinn að velmegun Íslands. Þau tíðindi höfðu gerst árið 1412 að Englendingar hófu beinar siglingar til Íslands – Þjóðverjar og Hollendingar komu síðan í kjölfarið. Fiskverð hækkaði verulega – þjóðin var eiginlega rík á einni nóttu og efnalega velmegun birtist alls staðar í heimildum. Mögulega var ábatanum misskipt. Mögulega urðu ákveðnar höfðingjaættir ofsaríkar. Ljóst er þó að þegar dró að lokum fimmtándu aldar var kirkjan búinn að ná undir sig töluverðum hluta af þessum gróða.

Mögulega kunna kirkjunnar þjónar að hafa stungið hluta af þessum ábata undan eða notað til þess að útbúa herflokka. Staðreyndin er samt sú að kaþólska kirkjan var með gríðarlega öflugt endurdreifingar – og samhjálparkerfi þar sem þessum ábata var deilt út. Fornleifarannsóknir á Skriðuklaustri sýna skýrt fram á þetta – en það klaustur virðist fyrst og fremst hafa verið spítali.

Þessari endurdreifingu eða velferðaraðstoð var að miklu leyti hætt eftir siðaskipti enda tapaði kirkjan jarðaeignum klaustranna. Það sem mestu skiptir er þó að sjávarútvegur hætti að mala gull fyrir landsmenn – eftir tilkomu verslunareinokunar. Konungur ákvað nú einhliða á hvaða verði fiskur skyldi keyptur af landinu. Þótt lágt fiskverð hafi að einhverju leyti verið bætt upp með háu verði á landbúnaðarvörum breytir það engu um þá staðreynd að í tæp tvö hundruð ár, meðan einokunin varði, þurftu landsmenn að selja Dönum fisk á verði sem var aðeins 10-20% af heimsmarkaðsverði. Þetta leiddi til þess að útgerð hérlendis fór sífellt aftur – allt fram til loka átjándu aldar hérlendis og þjóðarhagur fór sömu leið.

Staðreyndin er sú að í kjölfar siðaskiptanna fór fram gífurleg eignaupptaka og frelsissvipting sem, þegar fram í sótti, gerði Ísland að einni fátækustu þjóð Evrópu. Það versta er þó konungur einangraði landið þar sem Íslendingum var bannað að eiga samskipti við aðrar þjóðir. Fram að siðaskiptum höfðu Íslendingar farið til náms í Þýskalandi, Hollandi, Englandi og víðar en nú komu fáir aðrir staðir en Kaupmannahöfn til greina. Einokunin þjónaði vel því markmiði Dana að afla tekna af landinu og efla um leið verslun í Kaupmannahöfn – en það fól í sér gríðarlegan kostnað fyrir Íslendinga.

Það var ekki fyrr en eftir Móðuharðindin eða 1787 sem konungur sá að sér og afnam verslunareinokunina að hluta þar sem öðrum þjóðum en Dönum var bannað að stunda verslun hérlendis. Það kom í hlut Jóns Sigurðssonar forseta að berjast fyrir fullri fríverslun – sem fékkst loksins árið 1854.

Þeirri spurningu má alveg velta upp hvort Jón Arason hafi raunverulega haft afl til þess að standa á móti framgangi þessarar áætlunar Dana að taka yfir auðlindir landsins – en það er samt alveg skýrt að siðaskiptin voru ákaflega slæm efnahagsleg tíðindi fyrir Íslendinga.

Ásgeir skorar á Björn Z. Ásgrímsson að skrifa pistil í Feyki.

Áður birst í 3. tbl. Feykis 2021.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir