Valdís Valbjörns keppir í Söngkeppni framhaldsskólanna í kvöld
Söngkeppni framhaldsskólanna fer fram í kvöld og verður haldin með glæsibrag á Akranesi. Í ár eru 24 framhaldsskólar skráðir til leiks og er markmið allra sem koma að Söngkeppninni, að þessi verði sú allra glæsilegasta. Valdís Valbjörnsdóttir frá Sauðárkróki tekur þátt fyrir hönd Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra.
Í upphafi mánaðarins var allt útlit fyrir það að Söngkeppnin yrði ekki haldin þegar RÚV tilkynnti að það þyrfti að bakka út úr verkefninu þar sem undirverktaki þeirra, sem áttu að sjá um verkefnið, hætti skyndilega við.
Allir lögðust á eitt og nú hafa Vinir hallarinnar á Akranesi tekið að sér að blása lífi í keppnina að nýju í samstarfi við SÍF. Keppnin verður sýnd í beinni útsendingu á RÚV í kvöld klukkan níu. Alls keppa tuttugu og fjórir framhaldsskólar en keppnin er mikilvægur liður í listalífi framhaldsskólanema. Kynnar keppninnar eru Steiney Skúladóttir og Atli Már Steinarsson.
Valdís er keppandi nr. 11 í röðinni og hefur númerið 9009111 í símakosningunni.
Fyrir þá sem ekki koma Valdísi fyrir sig er hún dóttir Önnu Sigríðar Stefánsdóttur og Valbjörns Geirmundssonar á Sauðárkróki.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.