Vill leiða lista Pírata í komandi kosningum

Eva Pandora Baldursdóttir þingmaður Pírata hefur tilkynnt að hún sækist eftir að leiða lista flokksins í Norðvesturkjördæmi í komandi kosningum. Eva Pandora 27 ára Skagfirðingur, viðskiptafræðingur að mennt en hefur einnig stundað nám í menningarstjórnun og er nú að ljúka diplómanámi í opinberri stjórnsýslu.

„Í aðdraganda síðustu kosninga hlaut ég brautargengi til að leiða lista Pírata og var kjörin til setu á Alþingi í kosningunum sem fram fóru á haustmánuðum 2016.

Sem þingmaður hef ég lagt áherslu á aukið gagnsæi í stjórnsýslunni, aukið traust og áhuga almennings á stjórnmálum og verkefnum Alþingis. Í stefnuræðu minni við upphaf nýsetts þings, þann 13. september s.l. var mér einmitt tíðrætt um mikilvægi þess að ástunda góða og opna stjórnsýslu, heiðarlega umræðu og virðingu fyrir skoðunum annarra.

Í þeim kosningum sem í hönd fara sækist ég eftir áframhaldandi umboði kjósenda til að láta til mín taka á vettvangi stjórnmálanna og mun berjast af einurð gegn þeirri leyndarhyggju, frændhygli, sérhagsmunagæslu og spillingu sem einkennir íslensk stjórnmál og stjórnsýslu,“ segir Eva Pandora.

Fleiri fréttir